Áhrif #MeToo á líf og frásagnir kvenna

„Í kjölfar #MeToo“ er yfirskrift viðburðaraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum og Jafnréttisskólans (GEST) vorið 2021 þar sem tveir sérfræðingar ræða saman um viðfangsefnið. #MeToo og sá árangur sem hreyfingin hefur náð verður til umfjöllunar og sjónum verður einnig beint að því sem er óunnið í baráttunni gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti. Viðburðaröðin byggir á tveimur bókum sem RIKK hefur nýlega staðið að útgáfu á, annars vegar fimmta heftið í ritröð RIKK, Fléttur V. #MeToo, og hins vegar handbók um hreyfinguna, The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement, sem er gefin út af Routlegde-útgáfunni í Bretlandi.

 

Viðburðirnir verða rafrænir og fara fram á netfundarforritinu Zoom (https://eu01web.zoom.us/j/62577101524) auk þess sem þeim verður streymt á Facebook. Upptökur verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs að viðburðum loknum. 

 

Í fyrsta viðburði raðarinnar, „Áhrif #MeToo á líf og frásagnir kvenna“, ræða Sigrún Sigurðardóttir og Dalrún J. Eygerðardóttir saman. Sigrún Sigurðardóttir er dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og eru rannsóknir hennar á sviði sálrænna áfalla og ofbeldis, afleiðinga og úrræða og áfallamiðaðrar nálgunar. Dalrún J. Eygerðardóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og rannsóknir hennar eru á sviði munnlegrar sögu og femínískrar sögu.

 

Sigrún bendir á hvernig umfjöllunin í kringum #MeToo-hreyfinguna opinberaði vanþekkingu á þeim alvarlegu langtímaáhrifum sem kynferðisofbeldi getur haft. Afleiðingar ofbeldisins eru tilfinningaleg og líkamleg þjáning, aftenging sálar og líkama auk langvinnra líkamlegra og sálrænna einkenna. Áföll eins og kynferðisofbeldi veikja ónæmiskerfið. Í #MeToo-byltingunni upplifðu konur sig ekki einar í þjáningu sinni. #MeToo-byltingin virkaði sem öflugur félagslegur stuðningur fyrir margar konur sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi og jafnvel aldrei sagt frá því. 

 

Dalrún fjallar um efnið út frá kynbundnu ofbeldi gagnvart ráðskonum í íslenskum sveitum á síðari hluta 20. aldar. Dalrún vinnur nú að doktorsrannsókn á sögu ráðskvenna sem  grundvallast á tugum viðtala hennar við fyrrum ráðskonur. Gögn Dalrúnar sýna að ráðskonur urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vinnuvettvangi sínum, sveitaheimilinu. Dalrún hefur greint áhrif #MeToo-byltingarinnar á munnlega geymd og tjáningu fyrrum ráðskvenna sem undirstrikar mikilvægi þess að skrásetja munnlegar #MeToo-sagnir eldri kvenna sem og sögulegt mikilvægi slíkra reynslusagna.