Hádegisfyrirlestradagskrá RIKK á haustmisseri 2023 er tileinkuð sama þema og dagskrá síðasta misseris: Afnýlenduvæðingu. Áhersla er lögð á fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir, sérstaklega þær sem leitast við að skoða undirliggjandi hugmyndafræði nýlendu- og heimsvaldastefnu í gagnrýnu ljósi kvenna- og kynjafræða, femínisma og jafnréttisfræða í víðum skilningi.

Fyrsta erindi raðarinnar fer fram 21. september, þá fjallar Davíð G. Kristinsson um endurskoðun fortíðarhátta í eftirlendubókmenntum Norður-Atlantshafsins. Viku seinna, þann 28. september, flytur Flora Tietgen svo erindi sitt um þjónustu við konur af erlendum uppruna á Íslandi: „Reproduction of Colonial Discourses in Institutional Practices: Exploring Services and Support for Immigrant Women in Iceland“. Sigríður Guðmarsdóttir mun svo flytja erindi sitt, „Afnýlendusiðir, árþjóðir og guðfræði á norðurslóðum Norðurlanda“ þann 12. október. Þann 26. október munu Giti Chandra, Jón I. Kjaran og Mohammad Naeimi taka sjónvarpsseríuna Ófærð til greiningar í erindi sem nefnist „Trapped in Coloniality. (Mis)Representation of Africa in the Icelandic TV Series Trapped“. Nína Hjálmarsdóttir og Þorbjörg Daphne Hall beina sjónum að listaheiminum í erindi sínu þann 9. nóvember sem ber titilinn „Ímyndir Íslands og birtingarmyndir þeirra í íslenskum samtímalistum“. Jovana Pavlovic skoðar íslenska umfjöllun um dauða Elísabetar II sem fjölmiðlafár í erindi þann 23. nóvember. Lokafyrirlestur raðarinnar flytur svo Guðrún Björk Guðsteinsdóttir þann 30. nóvember undir yfirskriftinni „Afnýlenduvæðing lesandans í The Prowler eftir Kristjönu Gunnars“

Fyrirlestraröðin fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands í samstarfi við safnið. Frekari upplýsingar um röðina má finna á heimasíðu og Facebook-síðu RIKK auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK til að fá sendar reglulegar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar. Fyrirlestrarnir í röðinni eru ýmist á íslensku eða ensku. Fyrirhuguð er útgáfa greinarsafns um efnið.