Alþjóðleg afmælisráðstefna RIKK fór fram um síðustu helgi og tókst hún afbragðs vel. Góður rómur var gerður að lykilfyrirlesurum ráðstefnunnar og fram fóru tuttugu málstofur þar sem fjöldi fræðimanna fjölluðu um rannsóknir sínar á sviði kvenna- og kynjafræða.

Jón Gnarr borgarstjóri flutti ávarp við upphaf ráðstefnunnar og benti hann meðal annars á, eins og Fréttablaðið gerði góð skil, að öll þau ár sem hann hefði verið þekktur maður á Íslandi hefði hann aldrei verið spurður að því hvaða rakvélar eða raksápu hann notaði, öfugt við þekktar konur sem gjarnan eru spurðar að því hvað þær séu með í snyrtibuddunni.

Cynthia Enloe, rannsóknarprófessor við Clark University, flutti opnunarfyrirlestur sinn fyrir fullum Hátíðarsal Háskóla Íslands, en fyrirlestur hennar fjallaði um Dominique Strauss-Kahn-málið og kallaðist „The Strauss-Kahn Affair: The Cultures and Structures of Masculinity“. Fréttablaðið, Morgunblaðið og Smugan fjölluðu um fyrirlestur Enloe.