AfangamatRIKK hefur unnið áfangamat á verkefninu Saman gegn ofbeldi sem er samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgar­svæðinu og Reykjavíkurborgar.

Borgarráð samþykkti 13. nóvember 2014 að Reykjavíkurborg beitti sér fyrir átaki gegn heimilisofbeldi í sam­vinnu við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuð­borgar­svæðisins, skrifuðu þá undir sam­starfsyfirlýsingu þess efnis. Þessir aðilar lýstu yfir vilja til að vinna að verkefninu í samvinnu við hagsmunasamtök og aðra sem lagt gætu verkefninu lið.

Markmið úttektar á verkefninu er tvíþætt. Annars vegar er leitast við að meta árangur verkefnisins með markvissum hætti og hins vegar var hugmyndin að nýta þær upplýsingar sem aflað er í úttektarvinnunni til að bæta verkefnið á meðan á því stendur. Aðferðafræði mótandi matsrannsókna (e. formative evaluation) er beitt, þar sem náin samvinna úttektarhóps við aðila samstarfsverkefnisins er í forgrunni, og áhersla á að matsvinnan nýtist verkefnaaðilum sem hafa rými til að laga vinnu­lag sitt að tillögum eftir því sem líður á verkefnatímann. Jafnframt er lögð áhersla á að verk­efnið er nýtilkomið og að það krefjist tíma fyrir starfsfólk að aðlaga starf sitt nýjum vinnu­aðferðum og bæta vinnuferla.

Markmiðið með áfangamatinu er að gera þeim sem taka þátt í verk­efninu kleift að fá grund­vallar­inn­sýn inn í það hvernig tekist hefur til í verkefninu fram að þessu og hvað betur megi fara. Lokaúttekt (e. end-term evaluation) fer fram þegar verkefninu lýkur og verður skýrsla fullbúin í febrúar 2016.

Höfundar skýrslunnar eru Rannveig Sigurvinsdóttir er doktorsnemi í félagslegri sálfræði við University of Illinois í Chicago, Kristín I. Pálsdóttir verkefnisstjóri RIKK og Erla Hlín Hjálmarsdóttir doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og verkefnastjóri við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Áfangamat – Saman gegn ofbeldi