Fimmtudaginn 16. febrúar, heldur Bryndís Björgvinsdóttir, M.A. í þjóðfræði, hádegisfyrirlestur sem ber heitið „Af hverju eru konur með fætur? Eiginkonur, ljóskur, hórur og fleiri kvenpersónur í nýlegum íslenskum bröndurum“. Fyrirlesturinn fer fram í Öskju, stofu 132, kl. 12:00-13:00.

Frá árinu 2000 hafa þjóðfræðanemar við Háskóla Íslands gert reglulega út af örkinni til að safna þjóðfræðadæmum – bröndurum, flökkusögnum, orðrómum, siðum og öðru af svipuðu toga – sem eru í umferð hverju sinni. Nú er svo komið að dæmin eru orðin yfir tvöþúsund talsins og þar á meðal eru sexhundruð og fimmtíu brandarar. Þeir hafa nú verið flokkaðir, ásamt hinum dæmunum, og greindir í gagnagrunn í von um að þeir geti nýst sem aðgengilegar heimildir í ýmiskonar rannsóknum. Börn, dýr, dauði, elli, fordómar, frægð, fyllerí, gort, innflytjendur, mannát, kynin, ljóskur, peningar, prestar, skyndibitastaðir og útlitsdýrkun má nefna sem örfá dæmi um þau þemu eða minni sem brandararnir búa yfir. Meira en þriðjungur af þessum bröndurum fjalla um kynin, og þá sérstaklega um áætlaðan eðlismun kynjanna – hvernig karlar eru, hvernig konur eru, og hvernig þeim kemur ekki saman.

Í fyrirlestrunum verður talað um einkenni brandara á okkar dögum, en þeir eru að stórum hluta lausir við þau mótunaráhrif og ritskoðun sem einkennir opinbera menningu og geta því endurspeglað ákveðin viðhorf sem sjaldan eru viðruð opinberlega en eiga sér þó ákveðinn hljómgrunn hjá minni eða stærri hópum í samfélaginu. Því má segja að brandarar geti gefið okkur aðra mynd af  “almenningsálitinu” en til að mynda fjölmiðlar og skoðanakannanir draga upp. Í fyrirlestrinum verður þá sérstaklega rýnt í brandara um mismun og eðli kynjanna, og leitast verður við að sýna og útskýra þá birtingarmynd kvenna sem þeir endurspegla.