Rósa EFöstudaginn 5. apríl flytur Rósa Erlingsdóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði við HÍ, fyrirlestur sem ber heitið „„Ætlarðu að taka peningana af mjólkurpeningunum?“ Sögur af stjórnmálaþátttöku kvenna“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Í fyrirlestrinum verður dregin upp mynd af stöðu íslenskra kvenna í stjórnmálum. Rýnt verður í tölur um framboð, kjör og þingsetu kvenna og spurt hvort efnahagshrunið hafi breytt þátttöku og aðkomu kvenna að stjórnmálum til langframa. Helstu skýringar og kenningar um stjórnmálaþátttöku kvenna beina sjónum að innviðum og starfsemi stjórnmálaflokka, framboðsaðferðum og beitingu sértækra aðgerða. Síðastliðin ár hefur athyglin í auknum mæli beinst að áhrifum óformlegra hindrana svo sem hugmyndafræði flokka, samfélagslegu kynjakerfi og kynbundinna valdatengsla. Í fyrirlestrinum verða framboðsaðferðir íslenskra flokka og kynbundið kerfi fyrirgreiðslustjórnmála skoðuð og greind með feminísku sjónarhorni stofnanakenninga. Rósa byggir á doktorsverkefni sínu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands þar sem gagnasöfnun felst m.a. í öflun tölfræðilegra gagna og viðtölum við íslenskar stjórnmálakonur.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

 

Öll velkomin!