Að skrifa konur inn í söguna

Föstudaginn 10. febrúar efnir Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) við Háskóla Íslands til málþings í samvinnu við Jafnréttisstofu, Sagnfræðistofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið um hlutdeild og birtingarmyndir kynjanna í sögubókum. Málþingið, sem ber heitið „Að skrifa konur inn í söguna“, fer fram kl. 14.00-17.30 í Öskju, stofu 132.

Málþingið er skipulagt í því augnamiði að fylgja eftir þeirri umræðu sem skapaðist í kjölfar rannsóknar Jafnréttisstofu á hlutdeild kvenna í námsbókum í sögu síðastliðið haust. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að hlutskipti kvenna í skyldunámsefni í sögu sé afar rýrt. Fáar konur eru nafngreindar í sögubókunum og þær konur sem þó bregður fyrir eru jafnan í bakgrunni í aukahlutverki eða hlutverki eiginkonunnar. Því hefur verið haldið fram að slík framsetning sögunnar sé ófullnægjandi og hlutdræg, þar sem hún sé sögð án tillits til sjónarhorns kvenna eða valdatengsla kynjanna. Umræðan vekur áleitnar spurningar um kynjapólitískt inntak kennslubóka í sögu, hlutverk sögukennslu og ríkjandi hugtök og frásagnir í Íslandssögunni.

Á málþinginu koma saman sérfræðingar í söguspeki, sagnaritun, og sérfræðingar í námsgagnagerð til að ræða kennslubækur í sögu, ójafna hlutdeild og birtingarmyndir kynjanna í þeim, og með hvaða aðferðum megi rétta við hlut kvenna í sögubókum. Hvernig má breyta því hvaða sögur eru sagðar í kennslubókum? Hvaða aðferðir gagnast best við að skrifa  konur og minnihlutahópa inn í söguna?

 

Dagskrá:

14.00-14.05 Fundarstjóri Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ og Hug- og Félagsvísindasvið HA: Opnun
14.05-14.15 Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: Ávarp
14.15-14.30 Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu:Kvenmannslaus í kulda og trekki kúrir saga vor?“
14.30-14.45 Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar:  Að skrifa námsefni í sögu með virðingu fyrir öllu fólki og ólíkum störfum þess.
14.45-15.00 Erla Hulda Halldórsdóttir, rannsóknarfræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna: Áskoranir kynjasögunnar.
15.00-15.15 Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands: Þjóðarsagan: Skuggamyndir af forfeðrum eða spegill fyrir alla?
15.15-15.40 Kaffihlé
15.40-15.55 Auður Magnúsdóttir, lektor í sagnfræði við Gautaborgarháskóla: „Mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?” Ný sjónarhorn, ný saga?
15.55-16.10 Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður: Leitin að skjölum kvenna.
16.10-16.25 Þorsteinn Helgason, dósent við Menntavísindasvið og námsgagnahöfundur: Er sagan í skólunum karlkyns?
16.25-17.30 Pallborðsumræður: Berglind Rós Magnúsdóttir, nýskipaður formaður stjórnar Námsgagnastofnunar; Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands; Nanna Kristín Christiansen, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu skóla -og frístundasviðs Reykjavíkurborgar; Auður Magnúsdóttir, lektor í miðaldasagnfræði við Gautaborgarháskóla; Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

 

 

Öll velkomin!