1410_rikk_hnappur_vefFöstudaginn 21. nóvember flytja Þorgerður Þorvaldsdóttir og Guðbjörg Lilja Hjartardóttir erindið „„Að hún sé til!“ Reynslan af mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar“. Fyrirlesturinn fer fram í sal 101 í Lögbergi kl. 12:00­–13:00.
Reykjavíkurborg tók ákveðið frumkvæði í jafnréttis- og mannréttindamálum á Íslandi þegar Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í maí 2006. Tilurð stefunnar er skýr yfirlýsing um að jafnréttis- og mannréttindasjónarmið skuli höfð til grundvallar innan stjórnkerfisins, á vinnustöðum og í þjónustu borgarinnar, en spyrja má hvort slík stefnumörkun sé hluti af ímyndarsköpun frekar en alvöru stefnumótun.
Í erindinu verður sagt frá könnun sem lögð var fyrir stjórnendur hjá Reykjavíkurborg þar sem spurt var um Mannréttindastefnuna, fordóma og stöðu jaðarsettra hópa. Þá verður fjallað um hvort og þá hvernig slík stefna geti verið tæki til breytinga, en innleiðing og framkvæmd mannréttindastefnu er viðamikið og flókið ferli, ekki síst þegar löggjöf um bann við mismunun er ábótavant eins og hún er hér á landi. Loks verður fjallað um mikilvægi sveitarfélaga við framkvæmd alþjóðlegra mannréttinda og hugmyndir um mannréttindaborgir mátaðar við Reykjavík.
Þorgerður Þorvaldsdóttir er doktor í kynjafræði og Guðbjörg Lilja Hjartardóttir er stjórnmálafræðingur. Þær eru sjálfstætt starfandi fræðimenn í ReykjavíkurAkademíunni.
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Öll velkomin!

Athugið að fyrirlestrinum hefur verið frestað um viku en upphaflega átti hann að vera í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins hinn 14. nóvember.