Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, flytur þann 28. janúar fyrirlesturinn „Að haga sér eins og stelpa: Stelpur í íslenskum prakkarabókum þá og nú“. Fyrirlesturinn fer fram í stofa 132 í Öskju kl. 12:25 – 13:25.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um íslenskar prakkarabækur – þar sem bornar verða saman „drengjabækur“ og „stúlknabækur“. Langflestar íslenskar prakkarabækur hafa verið drengjabækur, skrifaðar í anda Nonnabóka Jóns Sveinssonar sem upphaflega komu út á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þegar eitthvað spennandi gerist í sögunum eru strákarnir iðulega bæði í aðal- og aukahlutverkum en stelpurnar hafa mun minna mikilvæg hlutverk í söguþræðinum. Á síðustu árum, aftur á móti, hefur nokkuð verið gefið út af bókum um sjálfstæðar og skemmtilegar stelpur, stelpur á borð við Fíusól Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa nýju kvenkyns prakkara og stelpuskott á borð við Fíusól verða bornar saman við stúlkur í eldri prakkarabókum. Spurt verður hvort þessar nútímalegu stúlkur taki einfaldlega við hlutverki drengjanna úr eldri bókunum eða hvort þær eigi sér einhverja sérstöðu. Þurfa stelpurnar að haga sér eins og strákar til að vera prakkarar – til að vera gerendur í eigin lífi – eða er hægt að vera stelpuleg stelpa í bleiku pilsi og vera um leið prakkari?