Að erfa minningar: Áföll og æviskrif

 

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, er áttundi og síðasti fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2019. Fyrirlestur hennar nefnist: „Að erfa minningar: Áföll og æviskrif“ og er fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 2. maí kl. 12:00-13:00.

Í fyrirlestrinum fjallar Gunnþórunn um sjálfsævisögulega texta þar sem höfundarnir reyna að átta sig á hinu liðna, skýra minningar sínar og fjölskylduminnið í ljósi trámatískra atburða úr fortíð. Rætt verður um hugtakið ‚post-memory‘ og hvernig það hefur verið nýtt til að greina ýmiss konar texta um áföll fyrri kynslóða. Vitneskja afkomendanna getur verið mjög takmörkuð og einungis byggð á hálfsögðum sögum og ófullkomnum heimildum. Kannað verður hvernig og hvort mögulegt sé að halda slíkri fortíð til haga og koma henni til skila í frásögn.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur einkum sérhæft sig í rannsóknum á æviskrifum af ýmsu tagi, minnis- og trámafræðum og samtímabókmenntum. Nýjasta bók hennar um efnið, Representations of Forgetting in Life Writing and Fiction kom út hjá Palgrave forlaginu 2017.

Fyrirlesturinn er á íslensku og er öllum opinn.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.