Halla GunnarsdóttirFöstudaginn 28. nóvember nk. flytur Halla Gunnarsdóttir, MA í alþjóðasamskiptum og fyrrum aðstoðarmaður innanríkisráðherra, erindi sem ber heitið „„… að ég væri frekar breskt pund en afrísk stúlka“: (Ó)frelsið til að setjast að á Íslandi.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl. 12:00–13:00.

Almennt er fólki frjálst að yfirgefa heimahaga sína en hið sama gildir ekki um að setjast að í nýju landi. Það eru því áfangastaðirnir – velmegunarlöndin – sem hafa hvað mest áhrif á þróun fólksflutninga í heiminum. Ísland er eitt þeirra landa. Árið 2002 voru sett lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga en miklar deilur höfðu sprottið um bæði lagafrumvörpin. Síðan þá hafa verið gerðar ýmsar breytingar á lagarammanum, auk þess sem settar hafa verið fram tillögur um frekari breytingar sem ekki hafa náð fram að ganga.

Erindi Höllu byggir á grein hennar í nýjasta tölublaði Skírnis en þar fjallar hún um þróun regluverks um aðgengi útlendinga frá löndum utan EES að Íslandi út frá kenningum um félagslegt réttlæti. Í erindi sínu mun Halla einkum beina sjónum að lögum um dvalarleyfi, atvinnuleyfi og búsetuleyfi og greina hvaða skilaboð löggjöfin gefur um hverjir mega setjast að á Íslandi, í samhengi við kyn, stétt og stöðu. Þá verður fjallað um þá stefnu að veita „mannúðlegar“ undanþágur frá lögum um útlendinga, þar á meðal í tengslum við veitingu ríkisborgararéttar frá Alþingi.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og er öllum opinn.

Viðburðurinn er á Facebook.