Andrew Wawn, prófessor í íslenskum og enskum fræðum við háskólann í Leeds, verður með rabb fimmtudaginn 2. desember kl. 12 í stofu 101, Odda, sem ber yfirskriftina A Victorian feminist in Iceland? – The strange case of E. J. Oswald.

Í rabbinu verður skoðaður áhugi þriggja 19. aldar kvenna í Bretlandi á íslenskum bókmenntum og menningu. Skrif skosku konunnar E.J. Oswald verða sérstaklega gaumgæfð en hún sendi frá sér vel upplýsta Íslandsferðabók (sem inniheldur frumsamin ljóð) og skáldsögu um söguöldina á Íslandi. Í þeim tilgangi að setja höfundarverk Oswald í samhengi verða einnig skoðuð ljóð tveggja samlanda og samtíðarkvenna hennar, þeirra Önnu Seward (vinkona John Thomas Stanleys, sem ferðaðist um Ísland 1789) og Beatrice Barmby (en Eiríkur meistari Magnússon var aðdáandi hennar). Fjallað verður um ástæðu þessa áhuga breskra 19. aldar kvenna á íslenskum fornbókmenntum, hvaða verk höfðuðu einna helst til þeirra, hversu mikið konurnar þekktu til íslenskrar tungu og menningar og hvernig þær öðluðust þá þekkingu.

Erindið verður flutt á ensku.