„Stelpur mínar, hvað eruð þið að spá?“

Þann 16. október kl. 12:00-13:00 munu Stefanía Kristín Bjarnadóttir og Heiðrún Hödd Guðmundsdóttir flytja „Stelpur mínar, hvað eruð þið að spá?“ í stofu 104 á Háskólatorgi.

Heiðrún Hödd Guðmundsdóttir og Stefanía Kristín Bjarnadóttir byggja erindi sitt á nýlokinni MA ritgerð í menningarfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Í ritgerðinni er saga kvennabókmenntarannsókna á Íslandi sett í menningarsögulegt samhengi. Bókmenntir hafa alltaf spilað stórt hlutverk í sjálfsmynd Íslendinga. Því er þeirri spurningu varpað fram hvort að kvenrithöfundar og skáld hafi átt auðveldara uppdráttar í landi sem byggði sjálfstæðiskröfur sínar meðal annars á bókmenntaarfi og tungumáli. Í því samhengi var aðallega litið á konur sem varðveitendur tungumálsins og miðlara íslenskra gilda. Hins vegar má glöggt sjá að hugðarefni þeirrar sjálfra þóttu ekki eins spennandi og verk þeirra ekki ýkja marktæk innan bókmenntastofnunarinnar.

Á Íslandi fengu femínískar bókmenntarannsóknir og kenningar óblíðar móttökur þegar þær fyrst komu fram á áttunda áratugnum. Hreyfa þurfti við orðræðu í kringum kvennabókmenntir og þá neikvæðni sem hafði fylgt umfjöllun um verk kvenna eftir að þær fóru virkilega að láta til sín taka á ritvellinum. Þessar rannsóknir hafa nú skilað sér í ríkum mæli inn í íslenska bókmenntasögu og menntakerfi. Rannsóknarsagan sjálf má hins vegar ekki verða gleymskunni að bráð, líkt og áður átti við um þau málefni sem henni hefur tekist að hefja upp á yfirborðið. Í erindinu verður litið á afrakstur kvennabókmenntarannsókna og sú saga verður í aðalhlutverki.

Stefanía Kristín og Heiðrún Hödd hafa báðar lokið BA prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og eru að ljúka mastersnámi í menningarfræði (moderne kultur og kulturformidling) við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Þó að þær hafi stundað nám samtímis á Íslandi kynntust þær fyrst árið 2004 á Norðurbryggju á Christianshavn þar sem þær starfa enn í dag. Norðurbryggja er menningarhús sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að kynna og miðla fjölbreyttri menningu Íslands, Grænlands og Færeyja. Þar er boðið upp á tónleika, mynd-, leik- og kvikmyndasýningar svo lítið eitt sé nefnt. Sannkallaður óska vettvangur menningarfræðinema. Mastersritgerðina skrifuðu þær á ensku undir handleiðslu Taniu Ørum, lektors við Háskólann í Kaupmannahöfn, og dr. Dagný Kristjánsdóttir var prófdómari.