Ör-erindi Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, doktors í kynjafræði, á málþinginu „Minna hot í ár.“ Stjórnmálaorðræða á Íslandi, annó 2018, um kvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaorðræðu sem fór fram á vegum Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – RIKK – við Háskóla Íslands og Kvenréttindafélags Íslands, í Veröld – húsi Vigdísar hinn 5. desember 2018. Sjá nánar: hér.
Löglegt en siðlaust. Hversu lengi getur vont versnað?
Þann 24. nóvember 2017 birtu rúmlega 400 konur úr öllum stjórnmálaflokkum #metoo-áskorun og 136 ofbeldissögur undir millumerkinu #ískuggavaldsins og þar með var íslensku #metoo-byltingunni hrundið af stað.
Þá héldum við að botninum væri náð og nú væri aðeins hægt að spyrna sér uppá við. En tæplega ári síðar hittust fjórir þingmenn Miðflokksins og tveir frá Flokki fólksins á óformlegum drykkjufundi á Klausturbar – og sorinn og skíturinn sem uppúr þeim vall var slíkur að það var eins og #metoo hefði aldrei gerst. Hatursorðræðan – þar sem megn kvenfyrirlitning blandaðist fötlunarfyrirlitningu og hómófóbíu var gengdarlaus og við þurfum að þora að kalla hlutina réttum nöfnum. Hatursorðræða er lauslega skilgreind sem „öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir hatur sem byggir á umburðarleysi og fjandskap gegn hverskyns minnihlutahópum og gegn konum“.
Bergþór Ólason talaði um að hann hefði notað orðfæri sem honum væri framandi og hann vissi ekki til að hann hafi notað áður. Á þingfundi tók Steingrímur J. [Sigfússon] svo undir þessi ummæli og smættaði hatursorðræðuna niður í óráðshjal. Forseti Alþingis er þannig búinn að gefa þeim fjarvistarsönnun, þeir voru með óráði, þeir vissu ekki hvað þeir sögðu eða gerðu.
En hvað ef? Hvað ef Marvin huldumaður hefði ekki kveikt á upptökutækinu og við hefðum aldrei fengið að vita hvað fram fór á Klausturbar þetta kvöld. Orðin hefðu samt verið sögð. Kvenhatur, fötlunarfordómar og hómófóbía hefðu fengið að flæða þótt engin vissi neitt. Hvar hefðu afleiðingarnar birst? Hvaða áhrif hafa svona orð og hugsanir (ef þau liggja í þagnargildi) á vinnuna í þinginu, á lagasetningar, nefndarstörf og á samskipti við fólkið sem var útúðað.
Í fyrirlestri sem Cynthia Enloe flutti hér fyrr á árinu í tengslum við #metoo áréttaði hún mikilvægi þess að skoða allar #metoo-sögurnar sem hluta af sömu heild. Aðeins lítill hluti #metoo-frásagnanna sögðu frá nauðgun eða öðru líkamlegu ofbeldi, en hún lagði áherslu á að það væri samhangandi þráður milli þeirra og „litlu sagnanna“ sem segja frá niðrandi athugasemdum og eitruðu tali. Þá minnti hún okkur á að feðraveldið fer aldrei í frí, það finnur stöðugt upp ný tæki og aðferðir til þess að viðhalda sér aðlagast og endurnýjast. Nýjasta birtingarmynd feðraveldisins hér á landi eru því karlar með óráði.
Að lokum er mikilvægt að hafa í huga að hatursglæpir hafa alltaf byrjað með niðurlægjandi og hatursfullri orðræðu. Orð eru til alls fyrst. Þess vegna er svo mikilvægt að bera kennsl á hana og stöðva hana áður en hún magnast upp og umbreytist í hatursglæpi.