Í viðburðaröð RIKK vorið 2021, er fjallað um #MeToo og þann árangur sem hreyfingin hefur náð fram að þessu auk þess sem sjónum er beint að þeirri baráttu sem enn er fram undan gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti. Tveir sérfræðingar eru leiddir saman í hverjum viðburði. Röðin byggist á efni tveggja bóka, annars vegar fimmta heftisins í ritröð RIKK, Fléttur V. #MeToo, í ritstjórn Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, Kristínar I. Pálsdóttur og Elínar Bjarkar Jóhannsdóttur og hins vegar handbók um hreyfinguna, The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement, í ritstjórn Irmu Erlingsdóttur og Giti Chandra sem er gefin út af Routlegde-útgáfunni í Bretlandi.

Sigrún Sigurðardóttir og Dalrún J. Eygerðardóttir ræddu um áhrif #MeToo á líf og frásagnir kvenna. Tonya Haynes og Jeff Hearn fjalla um karlmennsku í samhengi við #MeToo og samfélagsmiðla. Karen Boyle og Audrey Roofeh nálgast #MeToo út frá ábyrgð og vinnustaðarmenningu og skoða einnig mikilvægi þess að setja hreyfinguna í staðbundið femínískt samhengi. Marai Larasi og Nichole Leigh Mosty ræða um samstöðu, kynþáttamisrétti og innflytjendur í tengslum við femínisma og aktívisma. Rochelle McFee og Pamela Runestad taka fyrir raddir og frásagnir þolenda. Næstar í röðinni eru Vinita Chandra og Lisa Salmonsson sem fjalla um möguleikana sem #MeToo opnar í akademíunni og á vinnustöðum almennt. Smiðshöggið á röðina reka svo þær Nanna Hlín Halldórsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir.

Viðburðaröðin er rafræn og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu RIKK og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á póstlista RIKK og fá tilkynningar um fyrirlestrana hér. Samtölin fara fram á veffundarforritinu Zoom og verður þátttakendum gert kleift að senda inn spurningar þar. Fyrirlestrarnir eru ýmist á íslensku eða ensku.