Haustdagskrá RIKK hefst fimmtudag 8. september með fyrirlestri Sigrúnar Sigurðardóttur um áhrif ofbeldis á heilsufar. Eins og fyrr er fyrirlestraröðin hýst í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl.12-13 á fimmtudögum.
Aðrir viðburðir á haustmisseri eru málþing um intersex fólk, sem haldið er í samstarfi við þverfræðilegt nám í kynfræði við Háskóla Íslands og félagið Intersex Ísland, og ráðstefnan Confronting gendered violence: Focus on perpetrators. Norræn ráðstefna sem haldin er í samstarfi við NIKK – norrænu upplýsingamiðstöðina um kynjajafnrétti – og velferðarráðuneyti Finnlands. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefnum: http://cgv.hi.is/.
Þema fyrirlestraraðarinnar að þessu sinni er kynbundið ofbeldi og verður fjallað um það frá ýmsum sjónarhornum. Sigrún Sigurðardóttir, lektor á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, fjallar um áhrif ofbeldis á heilsufar. Nafna hennar Sigrún Ólafsdóttir ræðir svo áhrif kynjaðra samfélaga á heilsufar.
Þá skoða þau Rannveig Sigurvinsdóttir, nýdoktor við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, og Jón Ingvar Kjaran, lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, ofbeldi út frá sjálfsmynd. Rannveig fjallar um þolendur en Jón Ingvar um gerendur.
Þær Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, og Ingibjörg Eyþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum greina frá rannsóknum sínum á ofbeldi gagnvart konum í bókmenntum miðalda.
Nánari upplýsingar um dagskrána.
Hugrás, vefrit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, fjallaði um dagskrána hinn 12. september 2016. Sjá: Kynbundið ofbeldi, heilsufar og sjálfsmynd.