RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum og Jafnréttisskólinn (GEST) standa að fyrirlestraröð á vormisseri 2020 sem er tileinkuð loftslasgsbreytingum út frá kynja- og jafnréttissjónarhorni. Hádegisfyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og fara fyrirlestrarnir fram í sal safnsins í hádeginu, alla jafna á fimmtudögum. Fyrirlestrarnir verða ýmist á íslensku eða ensku.

Fyrsti fyrirlestur vormisseris verður fluttur 23. janúar af Ole Martin Sandberg, doktorsnema í heimspeki við Háskóla Íslands, og fjallar um loftslagskrísuna út frá rökvísi karlmannlegrar verndar. Næst fjallar Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands, um kvenlega ásýnd náttúruverndar í Rómönsku Ameríku. Auður H. Ingólfsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, flytur erindi um loftslagsbreytingar, kynjajafnrétti og þróunarsamvinnu. Mukul Mangalik, prófessor í sagnfræði við Delhi háskóla á Indlandi og fyrirlesari hjá Jafnréttisskólanum, fjalla um náttúruvernd og Chipko hreyfinguna í Indlandi. Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri hjá Háskólaútgáfunni, sækir í brunn Gyrðis Elíassonar og veltir upp takmörkum stóuspekinnar í listamannaþríleik hans. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í samstæðilegri guðfræði við Háskóla Íslands, nefnir erindi sitt „Spurning um réttlæti og von: Viðbrögð femínískrar guðfræði við yfirvofandi hamfarahlýnun.“ Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley háskóla í Bandaríkjunum og fyrirlesari hjá jafnréttisskólanum, er næstsíðasti fyrirlesari raðarinnar og tekst hún á við samband olíuiðnaðarins og karlmennsku í erindi sínu. Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í alþjóðastjórnmálum við Háskólann í Malmö, slær svo botninn í röðina með fyrirlestri um samtvinnun og loftslagsstefnumótun.

Dagskrá hádegisfyrirlestraraðarinnar og nánari upplýsingar um hana má finna hér.