Ör-erindi Ragnhildar Helgadóttur, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík, á málþinginu „„Minna hot í ár.“ Stjórnmálaorðræða á Íslandi, annó 2018“, um kvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaorðræðu sem fór fram á vegum Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – RIKK – við Háskóla Íslands og Kvenréttindafélags Íslands, í Veröld – húsi Vigdísar hinn 5. desember 2018. Sjá nánar hér.

 

 En hvað með lögin?

Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar HR

Í umræðum undanfarinna daga hefur oft verið vísað til þess að alþingismenn beri ábyrgð gagnvart kjósendum, í kosningum, og engir aðrir geti beitt þá viðurlögum vegna hegðunar þeirra. Þetta stemmir sannarlega við lög; stjórnarskrá geymir ákvæði um kjör þeirra og um sjálfstæði þeirra og þingsins og í almennum lögum er að finna fleiri ákvæði sem tryggja eiga sjálfstæði Alþingis og alþingsmanna.

Reglurnar eru hugsaðar til að tryggja fulltrúum þjóðarinnar öryggi og vinnufrið, ekki síst gagnvart framkvæmdarvaldinu, en vandinn við þetta, þegar upp kemur mál eins og Klausturmálið, er tvíþættur.

Í fyrsta lagi getur hegðun þingmanna valdið því að Alþingi samrýmist ekki þeim kröfum sem almennt eru gerðar til vinnustaða í lögum, en atvinnurekendum er t.d. óheimilt að horfa framhjá því ef þeir verða varir við einelti, kynbundna áreitni eða ágreining í samskiptum starfsmanna sem líkur eru á að geti leitt til slíkrar hegðunar.

Á móti hefur réttilega verið bent á að Alþingi sé enginn venjulegur vinnustaður – þar takast kjörnir fulltrúar á um grundvallaratriði og eiga að gera það. Að baki liggur sú afstaða að lýðræðissjónarmið – sem liggja einmitt líka að baki þjóðkjörinu og sjálfstæði þingmanna – trompi allt annað, þannig að þær reglur og þau sjónarmið sem gildi um venjulega vinnustaði eigi ekki við.

Sem leiðir okkur beint að seinni punktinum.

Í öðru lagi hefur þessi hegðun nefnilega áhrif á kosningar og þar með á rökin fyrir því að þingmenn njóti sjálfstæðis og að venjulegar samskiptareglur gildi ekki um þá.

Aðrir en ég hafa rannsakað og lýsa því hér, hvernig umræða um konur í stjórnmálum er ólík umræðu um karlmenn í stjórnmálum. Sama gildir um fræðafólk; karlkyns prófessorum sem segja eitthvað sem fólk er ósammála er mótmælt, oft með rökum; en kvenkyns prófessorum er mótmælt (oft með rökum) OG bent á hvað konur eins og þær þurfi; sagt að vara sig á að vera ekki einar á ferli og fleira. Þetta er sitt hvor veruleikinn og ákvörðunin um að stíga fram og tjá sig er ólík.

Og þar – hvað snertir stjórnmálafólk – liggur hundurinn grafinn. Samkvæmt lögum og sáttmálum/yfirlýsingum sem Ísland hefur gerst aðili að er það

  • skilyrði lýðræðislegrar stjórnskipunar að fram fari kosningar sem endurspegli vilja kjósenda; þar sem kosningaréttur og kjörgengi er almennt, kosningarnar leynilegar, kjörtímabil takmarkaðm vægi atkvæða að einhverju leyti jafnt og (skv. Mannréttindadómstól Evrópu (MDE)) þar sem tjáningarfrelsi ríkir.

Margir vilja (að mínu mati með réttu) telja skilyrðin fleiri og fella meira undir hugtakið, en þetta er í raun og veru óumdeilt. Þá má minnast á að samkvæmt MDE eru fjölhyggja, umburðarlyndi og víðsýni nauðsynleg einkenni á lýðræðisríkjum (Handyside og Young, James og Webster).

Við þurfum ekkert að ræða það frekar að umræða eins og sú sem fram fór á Klaustri hefur fælingarmátt. Hún gerir ákvörðun kvenna og fatlaðs fólks um að bjóða sig fram til þátttöku í stjórnmálum miklu „dýrari“ en ákvörðun karlmanna. Hegðun sem hækkar þröskuldinn fyrir þátttöku í stjórnmálum fyrir suma, en ekki aðra, grefur undan kosningum bæði sem leið til að tryggja lýðræðislegt stjórnarfar (því við getum ekki verið viss um að niðurstaða kosninga endurspegli vilja kjósenda) og sem leið til að láta stjórnmálamenn bera ábyrgð. Það má halda því fram að það hafi ekkert mikla þýðingu að vera endurkjörinn, ef maður hefur með hegðun sinni gert stórum hópum (konum, fötluðum, samkynhneigðum, öllum sem passa ekki inn í heldur þrönga og dapurlega karlmennskumynd) miklu erfiðara fyrir að bjóða sig fram gegn manni.

Þannig má rökstyðja að hegðun sem beinist að því að gera hópum sem eru í minnihluta á þingi enn erfiðara fyrir að láta til sín taka og grafi undan grundvallarhugmyndinni að baki þeim lögum sem menn bera fyrir sig um sjálfstæði þingmanna. Þ.e.a.s. grafi undan Alþingiskosningum og sjónarmiðum um það hvernig lýðræðisríki eiga að vera.