Decolon-Ice vinnustofa

Í síðustu viku fór fram tveggja daga vinnustofa á vegum RIKK í rannsóknarverkefni um afnýlenduvæðingu háskólamenntunar í norrænu samhengi (Decolon-Ice) sem Giti Chandra, sérfræðingur hjá RIKK og Jafnréttisskóla Gró (GRÓ-GEST), leiðir. Verkefnið er styrkt af Rannís. Í vinnustofunni ræddu þátttakendur í verkefninu, ásamt sérfræðingum utan HÍ, verkefnið, forsendur þess, Norrænt samhengi nýlenduvæðingar og næstu skref en verkefnið er til þriggja ára. Hér að neðan má sjá mynd sem Kristinn Ingvarsson tók af hluta hópsins sem tók þátt í vinnustofunni sem fór bæði fram í persónu og með rafrænni þátttöku.

Um verkefnið:

Afnýlenduvæðing háskóla felst í að greina námsefni og aðferðafræði kennslu með það fyrir augum að skoða áhrif undirliggjandi hugmyndafræði nýlendu- og heimsvaldastefnu. Slík áhrif hafa oft í för með sér þöggun og afbakanir sem viðhalda samfélagslegum ójöfnuði, veikja lýðræði og draga úr jafnrétti. Háskóli Íslands (HÍ) hefur, á sama hátt og aðrar norrænar háskólastofnanir, að markmiði að skapa frjóan jarðveg fyrir rannsóknir og nýsköpun þar sem hlúð er að margbreytileika og jafnrétti á öllum stigum starfseminnar. Hins vegar eiga HÍ og aðrir norrænir háskólar enn eftir að staðsetja sig gagnvart þessum viðmiðum. Afnýlenduvæðing háskólamenntunar í norrænu samhengi (Decolon-Ice) er umbótamiðuð rannsókn (e. participatory action research) í þeirri merkingu að rannsakandi og þýði taka þátt í breytingaferli eftir því sem rannsókninni vindur fram. Framkvæmd verður eigindleg innihaldsgreining á námsefni og námskeiðslýsingum og tekin verða djúpviðtöl við nemendur og kennara í HÍ. Í kjölfarið fer fram samráðsferli, sem er hluti af rannsókninni, um leiðir til að afnýlenduvæða kennslu á háskólastigi og það hvernig styðja megi æðri menntastofnanir almennt í þeirri viðleitni. Um er að ræða fyrstu rannsókn á afnýlenduvæðingu kennslu og námsefnis við norrænan háskóla.

 

Rachael Lorna Johnston, Giti Chandra, Suman Gupta, Kristín Loftsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Mohammad Naeimi, Zaw Myo Win og Elín Björk Jóhannsdóttir.  Ljósmyndina tók Kristinn Ingvarsson