Daniela Alaattinoğlu er fjórði fyrirlesari fyrirlestraraðarinnar Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi sem er haldin í samstarfi RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) á vormisseri 2022. Fyrirlestur Danielu fjallar um baráttuna fyrir réttindum intersex fólks á Íslandi og nefnist „Mobilising for Intersex Rights in Iceland“. Fyrirlesturinn er á ensku, verður haldinn kl. 12.00 þann 24. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.

Í iðnvæddum ríkjum hefur sjúkdómsvæðing verið algengasta læknisfræðilega nálgunin í meðferð intersex fólks, það er fólks með meðfædd frávik á líkamlegum kyneinkennum sem ekki er auðveldlega hægt að flokka sem „karlkyns“ eða „kvenkyns“, frá miðri tuttugustu öld til dagsins í dag. Hið læknisfræðilega viðbragð við því sem talið er sjúklegt ástand hefur verið „leiðrétting“ sem oft er fólgin í óafturkræfum inngripum í líkama ungbarna. Ísland er engin undantekning. Á síðustu áratugum hefur baráttufólk fyrir réttindum intersex fólks gagnrýnt þá læknisfræðilegu nálgun að frávik í líkamlegum kyneinkennum eigi að meðhöndla sem sjúkdóm. Á síðari hluta síðasta áratugar hóf intersex fólk á Íslandi skipulagða baráttu fyrir bættri stöðu intersex fólks og því að stöðva læknisfræðileg inngrip án samþykkis. Á árunum 2019 og 2020 náðust mikilvægir lagalegir áfangar: kyneinkenni voru tekin inn í lög gegn mismunun, þriðja kynið var kynnt og síðast en ekki síst voru ónauðsynleg læknisfræðileg inngrip í líkama intersex barna bönnuð (þó með nokkrum eftirtektarverðum undantekningum). Í dag eru íslensku lögin um kynrænt sjálfræði álitin til fyrirmyndar í alþjóðlegum samanburði. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig baráttufólki fyrir réttindum intersex fólks tókst að nota bæði alþjóðlegar mannréttindayfirlýsingar og -samninga og réttindaorðræðu til að breyta lögum og læknisfræðilegum nálgunum. Kastljósinu er sérstaklega beint að því hvernig hreyfingar geta notað réttindi sem tæki til að setja fram kvörtunarmál og fá stofnanir til að bregðast við og knýja fram aukna inngildingu í lögum og samfélaginu. Að lokum er spurt um takmarkanir réttindamiðaðar nálgunar þegar kemur að því að bæta stöðu intersex fólks.

Daniela Alaattinoğlu er nýdoktor við lagadeild Háskóla Íslands. Rannsóknarverkefni hennar skoðar baráttuna fyrir réttindum intersex fólks á Norðurlöndunum. Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á Youtube-rás Hugvísindasviðs.