Föstudaginn 8. maí flytur Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, fyrirlesturinn „Amma gat allt nema gengið niður stiga“ í stofu 132 í Öskju, kl. 12-13.
Silja Bára fjallar um móðurömmu sína, Sigurbjörgu Helgadóttur, húsmóður í Ólafsfirði. Bogga, eins og hún var kölluð, fæddist í Ólafsfirði árið 1919 og lést árið 2005. Hún var næstelst tólf systkina og er henni lýst sem víðsýnni, ákveðinni og fróðleiksfúsri. Hún aflaði sér fjár til að ganga í kvennaskóla á Laugalandi í Eyjafirði og síðar réði hún sér kennara til að læra erlend tungumál.
Bogga starfaði síðan um skeið á Akureyri en flutti aftur til Ólafsfjarðar þar sem hún gekk að eiga Brynjólf Sveinsson, kaupmann og síðar stöðvarstjóra Pósts og síma þar í bæ og eignaðist með honum fjögur börn. Árið 1964 fékk Bogga heilablóðfall og lamaðist hægra megin á líkamanum. Hún bjó við þá fötlun og mikla skerðingu lífsgæða það sem eftir var ævinnar, þótt hún gæti í augum barnabarnanna allt nema gengið niður stiga. Í erindinu skoðar Silja Bára lífssögu Boggu í ljósi þessarar reynslu.
Fyrirlesturinn er sá síðasti á vormisseri í fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.
Fyrirlesturinn er aðgengilegur á vefnum ásamt tveimur öðrum fyrirlestrum úr röðinni.