Efni: Kall eftir fyrirlestrum og greinum um afnýlenduvæðingu

Frestur til að tilkynna um þátttöku og skil ágripa: 13. desember 2022

Skil greina: 1. nóvember 2023

Lengd greina: 5.000-7.000 orð með neðanmálsgreinum

Rannsóknarstig: 10

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands stendur að hádegisfyrirlestraröð og útgáfu nýs fræðirits um afnýlenduvæðingu. Efnið verður valið í gegnum opið kall og áætlað er að helga fyrirlestraraðir beggja missera 2023 efninu og fylgja svo fyrirlestraröðunum eftir með útgáfu ritrýnds fræðirits.

Áhersla verður lögð á fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir á afnýlenduvæðingu og sérstaklega efni þar sem leitast er við að skoða undirliggjandi hugmyndafræði nýlendu- og heimsvaldastefnu í gagnrýnu ljósi kvenna- og kynjafræða, femínisma og jafnréttisfræða í víðum skilningi. Afnýlenduvæðing er pólitískt ferli sem hefur ekki aðeins haft mótandi áhrif á kynjajafnréttishreyfingar, lagaramma og stefnumál heldur hefur hún einnig sett svip sinn á hugmyndir og kenningar um kynjajafnrétti innan femínískra, hinsegin- og karlmennskufræða. Sjónarhorn afnýlenduvæðingar og eftirlendufræða sýna hvernig langvarandi áhrif nýlenduvæðingar halda áfram að stuðla að þöggun og afbökun, viðhalda samfélagslegum ójöfnuði, veikja lýðræði og draga úr jafnrétti.

Skila skal ágripi um viðfangsefni fyrir 13. desember 2022. Tekið er við ágripum hvort sem er á íslensku eða ensku en gengið er út frá því að fyrirlesarar séu á staðnum þegar erindin fara fram. Gert er ráð fyrir að höfundar fái 10 rannsóknarstig fyrir birtingu í fræðiritinu. Ágripum skal skilað í Word-skjali á tölvupóstfangið elinbjork@hi.is. Þar skal koma fram:

  • titill
  • 150-200 orða ágrip
  • 4-5 lykilorð
  • höfundur/ar
  • 100-150 orða starfságrip höfunda/r

Tilbúnum greinum skal skilað 1. nóvember 2023. Frekari upplýsingar veitir verkefnisstjóri RIKK, Elín Björk Jóhannsdóttir, í netfanginu elinbjork@hi.is eða í síma 525-5230.

 

Kallið á PFD-formi