Dr. Henri Myrttinen, doktor í kynjafræði, er annar fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2019. Fyrirlestur hans nefnist: „Að breikka sjónarsviðið. Kostir og gallar þess að samþætta karlmennsku- og hinseginsjónarmið að konum, friði og öryggi“ og að venju er fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 24. janúar kl. 12:00-13:00.
Undanfarin fimm ár hefur orðið vart við aukinn þrýsting innan akademíu og á meðal stefnumótunaraðila að breyta „konur, friður og öryggi“ í „kyngervi, friður og öryggi“. Þessi áherslubreyting felur í sér breiðara sjónarsvið þar sem litið er til karla, karlmennsku, svo og fjölbreyttra kynhneigða og –vitunda. Þessi áherslubreyting er að mörgu leyti kærkomin og getur, þegar vel tekst til, stutt við valdeflingu kvenna og kynjajafnrétti. Á hinn bóginn er hætta á að breytingin grafi undan markmiðum málaflokksins og jaðarseti áherslur kvenna og stúlkna. Í fyrirlestrinum verður fjallað um kosti og galla þess að samþætta karlmennsku og hinseginsjónarmið að málaflokknum og hvernig megi samræma ólíkar áherslur til að stuðla að kynjajafnrétti.
Dr. Henri Myrttinen er yfirmaður málefna er varða kyn og friðaruppbyggingu hjá International Alert. Samtökin vinna að friðaruppbyggingu og eru með aðsetur í London. Dr. Henri Myrttinen er með doktorspróf frá KwaZulu-Natal-háskóla í Suður-Afríku og fjallaði í lokaverkefni sínu um karlmennsku og ofbeldi í Austur-Tímor. Hann hefur síðan birt mikið af efni um kyngervi, frið og öryggi og starfað að málefnum er varða karlmennsku og hinsegin fólk.
Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn.
Finndu viðburðinn á Facebook!
Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.
Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.
***