RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum stendur að fyrirlestraröð á haustmisseri 2020 sem er tileinkuð loftslasgsbreytingum út frá kynja- og jafnréttissjónarhorni undir yfirskriftinni „Femínísk sýn á loftslagsvandann“. Fyrirlestrarnir eru rafrænir þar til aðstæður leyfa að þeir séu haldnir í Þjóðminjasafni Íslands.

Fyrirlestraröðin hófst í síðustu viku með erindi Arnfríðar Guðmundsdóttur, prófessors í samstæðilegri guðfræði við Háskóla Íslands: „Spurning um réttlæti og von. Viðbrögð femínískrar guðfræði við yfirvofandi hamfarahlýnun.“ Fyrirlesturinn er aðgengilegur á heimasíðu RIKK og á Facebook.

Fimmtudaginn 8. október er það síðan Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri hjá Háskólaútgáfunni, sem flytur fyrirlesturinn „„hún hafði fullar gætur á örlögunum og allri eyjunni“. Karlar, konur og náttúra í verkum Gyrðis Elíassonar og Tove Jansson“. Fyrirlesturinn verður aðgengilegur á heimasíðu RIKK og á Facebook.

Næst á dagskrá í fyrirlestraröðinni er Andrea Marta Vigfúsdóttir, sérfræðingur hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, með fyrirlesturinn „Kynjahlutverk og jafnrétti á Norðurslóðum. Áskoranir og framtíðarsýn“ sem verður haldinn þann 29. október.

Þann 12. nóvember spyr Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði: „Liggja rætur vistkerfisvandans í kristnum hugmyndaheimi? Svör nokkurra kristinna vistfemínista“

Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, rekur loks smiðshöggið á fyrirlestraröðina 10. desember með erindinu „Konan sem kannaði leyndardóma jöklanna. Emma Todtmann og rannsóknir hennar á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar“

Dagskrá hádegisfyrirlestraraðarinnar og nánari upplýsingar um hana má finna á heimasíðu RIKK.