Fimmtudaginn 3. maí heldur Helga Kress, prófessor emeritus í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hádegisfyrirlestur sem ber heitið „Veiðileyfi á konur? Um (mis)notkun persónulegra heimilda í verkum nokkurra karlrithöfunda samtímans”. Fyrirlesturinn fer fram í Odda, stofu 101, kl. 12:00-13:00.
Fjallað verður um konur sem aðalpersónur og/eða sögumenn í svokölluðum sögulegum skáldsögum (eða heimildaskáldsögum) eftir íslenska karlrithöfunda samtímans. Áhersla verður lögð á raunverulegar fyrirmyndir þeirra, einkum í skriflegum heimildum (en einnig munnlegum), vinnubrögð höfundanna við úrvinnsluna, viðtökur bókanna („einróma lof“) og ófagleg viðbrögð við gagnrýni (ad feminam). Meðal skáldsagna sem rætt verður um eru Slóð fiðrildanna (1999), Sakleysingjarnir (2004) og Málverkið (2011) eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Enn er morgunn (2009) eftir Böðvar Guðmundsson og Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Sögusvið þessara skáldsagna er Ísland og Evrópa á tímum síðari heimsstyrjaldar með sérstakri áherslu á nasismann (óþrjótandi og alþjóðlegt sögulegt efni) auk þess sem þær teygja sig aftur á bak og áfram í tíma og er þannig ætlað (sumum) að vera „aldarspegill“ með íslensku konuna sem táknmynd þjóðernis í miðju. Meðal atriða sem komið verður inn á (auk merkimiðans „söguleg skáldsaga“ og fyrirbrigðisins „Cherchez la femme“) eru siðferði og heiðarleiki, plagíarismi ( heimildastuldur/ ritstuldur), afbakanir/afskræmingar og „lögmál skáldsögunnar“, kynferði/kynfæri og klám, sölumennska og markaðssetning (metsölubækur), innanlands og utan (landkynning).