Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku, flytur erindið „Vegferð til betra lífs? — Kyn skiptir (öllu) máli á tímum fólksflutninga“, fimmtudaginn 23. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Hólmfríður er prófessor í spænsku við Háskóla Íslands en hún lauk doktorsnámi í bókmenntafræði og spænsku, með áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku, frá Texasháskóla í Austin árið 2001. Hún hefur starfað sem aðjunkt, lektor, dósent og prófessor við Háskóla Íslands frá 1998. Hólmfríður starfar við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði skólans.
Ástæður, aðstæður og afleiðingar straums flóttamanna til Evrópu hafa verið mjög til umræðu síðustu misseri. En fólk er á faraldsfæti víða um heim og af ýmsum og ólíkum sökum. Þar má nefna flóttamenn frá Afríku og Mið-Austurlöndum á flótta undan stríði, þurrkum og öðrum breytingum af völdum loftslagsbreytinga, farandverkamenn frá fátækari löndum Evrópu til hinna efnameiri, Rómafólk sem ferðast um í leit að lífsviðurværi að ógleymdum fórnarlömbum mansals sem glæpahringir stunda og er mikið vandamál m.a. í Evrópu.
Í fyrirlestri sínum ætlar Hólmfríður að fjalla um þá fólksflutninga sem eiga sér stað á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Um áratuga-skeið hefur fólk frá löndum Rómönsku Ameríku, aðallega smáríkjum Mið-Ameríku, lagt land undir fót og sóst eftir því að komast til Bandaríkjanna. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að birtingarmyndum umræddra fólksflutninga, sérstaklega frá Hondúras, Gvatemala og El Salvador, í nýlegum kvik- og heimildamyndum, þar sem viðhorf og reynsla kvenna verður undir smásjánni. Spurt er hvers vegna leggja þær af stað, hvað gerist á leiðinni og hvað bíður þeirra í norðrinu?
Erindið er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.
Finndu viðburðinn á Facebook!