Fimmudaginn 25. september flytur dr. Sigríður Þorgeirsdóttir opinberan fyrirlestur sem nefnist Um mismunun og jafnrétti í ljósi mótunarhyggju Judith Butlers.
Hinar margvíslegu tilraunir til að skilgreina mismun kynjanna og yfirleitt ákvarða merkingu hugtakanna „kona“ og „karl“ spanna vítt svið og hafa skapað glundroða sem bandaríski heimspekingurinn Judith Butler hefur tekið til gagngerrar athugunar í bók sinni Gender Trouble. Butler gagnrýnir hvers kyns skilgreiningar á mismun kynjanna innan femínískra fræða, sem hún telur að leiði til afmörkunar á ákveðnum sérkennum þeirra, sem leiði til útilokunar frávika. Lýsandi skilgreiningar á mismun (hvernig konur eru) fela að hennar mati ennfremur í sér boðandi hugmyndir um mismun (hvernig konur eigi að vera). Butler hafnar einnig algildum lögmálum jafnréttis þar eð hún álítur þau vera afsprengi sögulegra og menningarlegra aðstæðna, sem geri að verkum að slík lögmál geti aldrei gilt fyrir alla, óháð stund og stað.
Gagnrýni Butlers vekur upp eftirfarandi spurningar sem verða teknar til umfjöllunar í fyrirlestrinum: Ef ekki er stætt á að skilgreina mismun, eins og Butler heldur fram, eru þá forsendur femínískrar gagnrýni brostnar? Hvernig er hægt að setja fram kröfur um aðgerðir gegn kynjamisrétti ef ekki er unnt að auðkenna konur sem hóp með ákveðna sérstöðu og séreinkenni, sem taka skuli mið af og byggja lagaleg sérréttindi á? Ef hinni almennu jafnréttiskröfu eru varpað fyrir róða, eins og gagnrýni Butlers kveður á um, segir þá ekki póstmódernísk femínísk hugmyndafræði Butlers sig úr lögum við gagnrýna samfélagslega umræðu um kvenfrelsi og jafnrétti?
Sigríður Þorgeirsdóttir er lektor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Humboldtháskóla í Berlín árið 1993, en lokaritgerð hennar fjallaði um list og sannleika í heimspeki Nietzsches.
Fyrirlesturinn er á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum og er öllum opið. Hann fer fram í stofu 101 í Odda og hefst klukkan 17:15.