Guðmundur Jónsson er fjórði gesturinn í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2025 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Erindið ber titilinn: „Um aðgreining vorra landsmanna“. Rýnt í félagslega lagskiptingu á tímum íslenska bændasamfélagsins og verður haldið fimmtudaginn 20. mars á milli kl. 12 og 13 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrirlestrinum fjallar Guðmundur Jónsson um félagslega lagskiptingu í bændasamfélaginu á Íslandi á árnýöld og þá ójöfnu skiptingu auðs, valda og virðingar sem henni fylgdi. Byggt er á nýútkominni bók sem Guðmundur skrifaði með hópi sagnfræðinga og landfræðinga og nefnist Ástand Íslands um 1700: Lífshættir í bændasamfélagi. Guðmundur ræðir um þrjár víddir félagslegrar lagsskiptingar í samfélaginu. Sú fyrsta er stigveldisskipting í ætt við lögstéttaskipan í Danmörku og víðar í Evrópu sem endurspeglaði valda- og virðingastiga konungsvalds og kirkju. Önnur er stéttakerfið sem grundvallaðist á efnahagslegri stöðu manna, eignum og atvinnu. Þriðja víddin er kynjakerfið sem hvíldi á siðvenjum og valdaskipan feðraveldisins og skipaði konum lægri sess og önnur hlutverk en körlum.
Guðmundur Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í hagsögu við London School of Economics and Political Science árið 1992 og var titill ritgerðar The State and the Icelandic Economy, 1870-1930.
Guðmundur hefur í rannsóknum og kennslu lagt áherslu á félags- og hagsögu Íslands, og sagnaritun og söguspeki, hagvöxt og hagþróun á síðari öldum, þ.m.t. efnahagskreppur, utanríkisverslun og efnahagssamvinna Íslands og Evrópu eftir 1945, sögu velferðarríkisins og neysluhætti og matarsögu.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.