Hjörvar Gunnarsson og Jón Ingvar Kjaran flytja annan fyrirlestur fyrirlestraraðarinnar Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi sem er haldin í samstarfi RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) á vormisseri 2022. Fyrirlestur Hjörvars og Jóns Ingvars nefnist „„Þú þarft að vera hvítur til að vera gay á Íslandi“. Upplifun samkynhneigðra karla af asískum uppruna af stöðu sinni sem hluti af tveimur jaðarhópum“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 10. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.
Í kjölfar umræðu undir merkjum #BlackLivesMatter hefur hörundsdökkt hinsegin fólk stigið fram og sagt sögur sínar af rasisma og fordómum. Fyrirlesturinn byggir á viðtalsrannsókn á reynslu samkynhneigðra karla af asískum uppruna. Rasismi og öráreiti eru gegnumgangandi þemu í frásögnunum þar sem greint er frá jaðarsetningu og útilokun á grundvelli tungumáls og þess að vera ekki hvítur. Í erindinu verður áhersla lögð á að draga fram hvernig hvers kyns rasismi á sér jafnan undirrót í kerfislægum þáttum sem ýta undir forréttindastöðu hvítra. Verður í þeim efnum gerð grein fyrir hugtökum á borð við hinsegin þjóðhverfu (e. homonationalism) og (hinsegin) hvítleika (e. queer whiteness) og þau notuð til að varpa ljósi á og greina gögnin. Fyrrnefnda hugtakið lýsir því hvernig ákveðnir hópar innan hinsegin samfélagsins – hvítt samkynhneigt fólk úr millistétt – hafa fengið viðurkenningu sem hluti af þjóðinni. Það síðarnefnda dregur svo fram hvernig veruleiki hinsegin fólks af öðrum uppruna mótast af hvítum viðmiðunum og gildum sem svo ýta undir forréttindastöðu þeirra sem teljast vera hvítir. Í fyrirlestrinum verður jafnframt rætt hvernig tungumálið virðist viðhalda tilteknum valdaafstæðum en viðmælendur virtust gera sér grein fyrir því að tilvera þeirra mótast af tungumálinu, íslenskunni, bæði á grundvelli kynhneigðar og uppruna. Vegna útlits og erlends uppruna höfðu viðmælendur reynslu af framkomu sem skýra má sem örógildingu jafnframt sem þeir upplifðu fórdóma á grundvelli kynþáttar síns. Lýsa þeir því hversu erfitt það getur verið að vera öðruvísi í hinsegin samfélaginu á Íslandi eða eins og titill erindisins bendir til: „Þú þarft að vera hvítur til að vera gay á Íslandi.“
Hjörvar Gunnarsson er kennari við Brekkubæjarskóla og byggir erindið á lokaverkefni hans til M.Ed.-prófs við menntavísindasvið Háskóla Íslands undir leiðsögn Jóns Ingvars. Jón Ingvar Kjaran er prófessor í hinsegin menntunarfræðum og félagsfræði menntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans fjalla um málefni hinsegin ungmenna, innflytjendur, ofbeldi í víðum skilningi, krítísk fræði og fjölmenningu. Um þessar mundir vinnur hann að bók um hinsegin aðgerðarsinna í Indónesíu og Malasíu ásamt dr. Mohammad Naeimi.
Fundarstjóri er Annadís Greta Rúdólfsdóttir, dósent í aðferðafræði rannsókna við Háskóla Íslands.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér.