Föstudaginn 14. september flytur Drífa Snædal, M.A. í vinnumarkaðsfræði, erindi sem ber heitið „Þegar heimili eins er vinnustaður annarra. Lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi“. Fyrirlesturinn verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00.
Störf innan heimila er vaxandi iðnaður í Evrópu og ekkert bendir til þess að Ísland sé þar undanskilið. Iðnaðurinn hér á landi er þó að stærstu leyti undir yfirborðinu sem vekur áhyggjur af réttarstöðu þeirra sem vinna slík störf. Hvaða hættur fylgja því að vinna inni á heimilum annarra? Hvernig getum við komið þessum markaði upp á yfirborðið til að lög nái yfir hann? Er ekki kominn tími til að uppfæra hjúalögin frá 1928 með tilliti til breytts samfélags og aukinnar þekkingar? Hvað getum við lært af nágrannalöndunum og hvernig getum við forðast að festa stétta- og kynjamisrétti í sessi við breytingar á lögum?
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Öll velkomin!