Sólveig Ásta Sigurðardóttir er fyrsti fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2023 en röðin er tileinkuð afnýlenduvæðingu. Fyrirlestur Sólveigar nefnist „„Þannig hugsum við ekki hér, vinan“. Norræn nýlendustefna og hvítt sakleysi í verkum Nellu Larsen“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 2. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrirlestrinum fjallar Sólveig um skáldsöguna Quicksand (1928) eftir Nellu Larsen sem hluta af skrifum gegn áhrifum norrænnar nýlendustefnu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Skáldsagan er skrifuð stuttu eftir kaup Bandaríkjanna á Jómfrúaeyjum 1917 sem var áður nýlenda Danmerkur en á eyjunum St. Thomas og St. Croix héldu Danir þræla við framleiðslu á sykurreyr á eyjunum frá 17. öld. Í skáldsögunni greinir Larsen hvítleika og afneitun á nýlendustefnu Norðurlandanna í Kaupmannahöfn í upphafi 20. aldar. Aðalpersónan Helga Crane, sem líkt og höfundur er bandarísk, á danska móður og föður frá Jómfrúaeyjum og verður fyrir aðkasti norrænna myndlistarmanna sem keppast um að fá að „túlka hana“ í verkum sínum. Með lýsingum sínum á listaheiminum og birtingarmyndum nýlendustefnu dregur Larsen saman þverþjóðlegar tengingar milli Bandaríkjanna og Norðurlandanna og skrifar gegn hugmynd um sakleysi sem hefur verið skilgreind af fræðimönnum sem „hvítt sakleysi“ á Norðurlöndunum (Gloria Wekker, Kristín Loftsdóttir). Þannig eru verk Larsen hluti af langri sögu skrifa gegn nýlendustefnu og hvítri yfirburðahyggju á Norðurlöndum sem teygja sig inn í samtímann.
Sólveig Ásta Sigurðardóttir er stundakennari við íslensku- og menningardeild við Háskóla Íslands. Hún er með doktorspróf í ensku og bókmenntum frá Rice-háskóla í Bandaríkjunum, er meðlimur í kvenna- og kynjafræðistofnun skólans auk þess að vera þátttakandi í norræna rannsóknarverkefninu „Transatlantic Slavery and Abolition in the Nordic Region, 1700-1920“. Sólveig er einnig félagi í ReykjavíkurAkademíunni.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.