Sunna Símonardóttir er annar fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2024 en röðin er tileinkuð samtvinnun. Titill fyrirlestrarins er „Það besta fyrir börnin: Þrástef og þagnir í fjölmiðlaumfjöllun um leikskólamál“ og meðhöfundur er Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 15. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er einnig á dagskrá Jafnréttisdaga.

Greining á fjölmiðlaumfjöllun um leikskóla á árunum 2020–2023 gefur skýrt til kynna að hart er tekist á um framtíð leikskólakerfisins á Íslandi. Í umfjöllun um vanda leikskólakerfisins hafa hugmyndir um heimgreiðslur (e. Cash-for-Care) skotið upp kollinum sem möguleg lausn. Í rannsókninni beitum við femínískri orðræðugreiningu til þess að greina fjölmiðlaumfjöllun um heimgreiðslur á 40 mánaða tímabili. Greining gagna sýnir hvernig neikvæð orðræða um getu leikskólakerfisins til að taka á móti öllum börnum skapar aðstæður þar sem heimgreiðslur virðast viðunandi lausn – bæði fyrir foreldra, en sérstaklega fyrir börn. Þögn ríkir um áhrif af heimgreiðslum á undirskipaða hópa samfélagsins, til dæmis konur af erlendum uppruna og börn þeirra, og veruleg þögn virðist líka vera um kynjuð áhrif heimgreiðslna. Þess í stað tökum við eftir póstfemínískri orðræðu um val einstaklingsins og ábyrgð hvers foreldris fyrir sig. Niðurstöður gefa til kynna hvernig átök og núningur skapast á milli jafnréttishugsjóna og hagsmuna barna.

Sunna Símonardóttir er nýdoktor og aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í bókmennta- og kynjafræði 2005 frá Háskóla Íslands, meistaraprófi í kynjafræði frá University of Leeds 2009 og doktorsprófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands 2017. Hún hefur sérhæft sig í rannsóknum á foreldrahlutverkinu, kyngervi og fæðingartíðni. Hún stýrir nú, með öðrum, rannsóknarverkefninu Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Wisconsin-háskóla í Madison 1991. Hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á menntastefnu, kennarastarfinu og kyngervi og menntun og er meðal annars höfundur bókarinnar Karlmennska og jafnréttisuppeldi sem RIKK gaf út.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.