Fimmtudaginn 7. október hélt dr. Hulda Þórisdóttir, félagssálfræðingur og lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, fyrirlestur er nefnist „Tengist kynjamismunun ánægju með lífið?“ Fyrirlesturinn var haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.15.
Í erindi sínu fjallaði Hulda um niðurstöður rannsóknar sem birtist nýverið í tímaritinu „Sex Roles“ (Napier, Thorisdottir og Jost, 2010). Fyrri rannsóknir hafa sýnt að þeir sem betur réttlæta samfélagslegan ójöfnuð eru að jafnaði ánægðari með lífið. Í þessari rannsókn voru greind gögn frá 32 löndum til að skoða samband þess að réttlæta kynjamismun og ánægju með lífið. Skoðuð voru tvenns konar viðhorf til kynjamismununar: „Uppbótar“ og „óvinveitt“. Niðurstöður greininga sýna fram á jákvæð tengsl ánægju með lífið og réttlætingu á kynjamismunun, en að samband uppbótar og óvinveittra viðhorfa og ánægju með lífið veltur á stöðu jafnréttis í viðkomandi landi.
Hulda Þórisdóttir lauk doktorsprófi í félagslegri sálfræði með áherslu á stjórnmálasálfræði frá New York University árið 2007 og hefur gengt lektorsstöðu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands frá 2009.