Stéttir, hagsmunir og vald í mótun samfélagsins

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stefán Ólafsson er fyrsti fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2024 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Fyrirlesturinn fer fram í Þjóðminjasafni Íslands, fimmtudaginn 12. september á milli klukkan 12 og 13.

 

Fyrirlesturinn nefnist „Stéttir, hagsmunir og vald í mótun samfélagsins“ og byggir á nýlegri bók eftir Stefán, Baráttan um bjargirnar: Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags. Í fyrirlestrinum horfir Stefán til þjóðfélagsþróunar á Íslandi síðustu hundrað árin og útlistar hvernig hagsmunir og vald hafa leikið lykilhlutverk í mótun samfélagsgerðarinnar. Einnig hvernig hagsmunir og vald tengjast beint við stéttaskiptingu og stéttaátök, sem einkum fara fram á vettvangi stjórnmála og vinnumarkaðar. Þá er þjóðfélagsþróunin á Íslandi skoðuð í almennu samhengi við þjóðfélagsþróun á hinum Norðurlöndunum, ekki síst á sviði velferðarmála og ályktanir dregnar um áhrif og áhrifaleysi vinstri stjórnmála og verkalýðshreyfingar í mótun íslenska samfélagsins almennt.

Stefán Ólafsson lagði stund á þjóðfélagsfræði í Edinborg og lauk doktorsprófi frá Oxford háskóla (Nuffield College). Starfaði við sem prófessor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands frá 1980 til 2021. Stefán hefur gefið út tíu bækur innan hans fagsviðs, auk Baráttunnar um bjargirnar (Háskólaútgáfan 2022) má nefna Welfare and the Great Recession: A Comparative Study (Oxford University Press 2019); Ójöfnuður á Íslandi (Háskólaútgáfan 2016, með Arnaldi Sölva Kristjánssyni); Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag (Háskólaútgáfan 2005, með Kolbeini Stefánssyni);  Íslenska leiðin (Háskólaútgáfan og TR 1999) og Hugarfar og hagvöxtur: Menning, þjóðfélag og framfarir á Vesturlöndum (HÍ 1996).

 

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.