Ellefu kvennasamtök efndu til morgunverðarfundar með stjórnmálaflokkunum þriðjudaginn 17. apríl kl. 8.00-9.30 á Grand hótel Reykjavík. Til umræðu var launamisrétti kynjanna og aðgerðir til að útrýma því. Erindi fluttu Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Þórey Laufey Diðriksdóttir formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Á eftir sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna fyrir svörum. Fundarstjóri Tatjana Latinovic. Fyrir tæpum tveimur árum söfnuðust tugþúsundir kvenna saman í miðborg Reykjavíkur til að minnast þess að 30 ár voru liðin frá kvennafrídeginum 24. okt. 1975 og til að krefjast launajafnréttis kynjanna. Í kjölfar kvennaársins 1975 var gerð könnun á launamun kynjanna sem leiddi í ljós að konur í þéttbýli höfðu að meðaltali 45% af launum karla. Nú rúmum 30 árum síðar hafa þær að meðaltali um 62% af launum karla þrátt fyrir að hafa bætt við sig mikilli menntun og vinna sífellt lengri vinnudag. Með sama áframhaldi verður launabilinu útrýmt upp úr 2070.
Þolinmæði okkar er á þrotum, við ætlum ekki að bíða svo lengi. Meðallaun segja ekki alla söguna en þau spegla þá staðreynd að staða kvenna er önnur en staða karla. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og lítur út fyrir að svo verði áfram ef marka má nýja könnun á framtíðarstarfsvali 15 ára unglinga. Sú staðreynd blasir við að störf sem konur vinna í mun ríkara mæli en karlar eru láglaunastörf. Stór hópur kvenna vinnur afar mikilvæg störf, t.d. við kennslu barna, en þau eru illa launuð þrátt fyrir mikla ábyrgð og kröfur um sífellt meiri menntun. Hluti kvenna vinnu hlutastörf til að geta sinnt börnum sínum. Hvers vegna bera þær meiri ábyrgð á umönnun barna en feðurnir? Svarið felst að miklu leyti í launamun kynjanna. Hluti kvenna er heimavinnandi, af hverju ekki pabbarnir? Svarið er það sama. Rannsóknir hafa margsýnt fram á að hér á landi er verulegur launamunur milli kynjanna, konum í óhag, sem eingöngu verður skýrður með kynferði. Samkvæmt könnun Capacent frá árinu 2006 var kynbundinn launamunur 15,7%.
Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur heitið því að útrýma launamun kynjanna en hvar eru efndirnar? Það hvorki gengur né rekur. Við svo búið má ekki standa. Íslenskar kvennahreyfingar spyrja því stjórnmálaflokkana nú í aðdraganda alþingiskosninga til hvaða aðgerða þeir ætla að grípa til að útrýma launamisréttinu og stöðva þar með þau mannréttindabrot sem konur sæta á íslenskum vinnumarkaði.