Föstudaginn 18. október flytur Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki á menntavísindasviði, fyrirlestur sem ber heitið „Sjálfsvirðing og hugmyndafræði“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.
Hvers vegna eru sum mál sem tengjast jafnrétti, hvort heldur jafnrétti karla og kvenna eða jafnrétti í víðari skilningi þess orðs, svona erfið viðureignar? Samfélagslegt misrétti er vandi sem á rætur að rekja til bæði félagslegra og pólitískra þátta en vandinn er líka tengdur einstaklingum, einstaklingsbundnum viðhorfum og athöfnum, því þar á hinn félagslegi veruleiki rætur. Það er ógerningur að skilja hið félagslega án þess að gefa gaum að hinu persónulega, og öfugt. Í erindi sínu mun Ólafur fjalla um þessi tengsl og leggja til nokkrar hugmyndir um hvernig mætti hugsa um þau, og þá einnig hvernig ætti að forðast að hugsa um þau.
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Öll velkomin!