Dr. Kristín Björnsdóttir flytur opinberan fyrirlestur á vegum námsbrautar í hjúkrunarfræði og Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands fimmtudaginn 15. apríl. Fyrirlesturinn nefnist Sjálfsskilningur íslenskra hjúkrunarkvenna á tuttugustu öldinni: Orðræða og völd.
Í honum fjallar Kristín um mótun hugmynda um hjúkrunarstarfið á Íslandi í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á heilbrigðiskerfinu á tuttugustu öldinni. Í greiningu sinni beitir Kristín m.a. kenningum úr kvennafræðum og skoðar hjúkrunarstarfið í ljósi þess að það hefur verið kvennastarf.
Kristín er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá Columbia háskólanum í New York á síðasta ári og starfar nú sem lektor í námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 17.15 í stofu 101 í Odda. Hann er öllum opinn.