26. janúar flytur Herdís Sveinsdóttir erindið „Sannar frásagnir“: Um mótsagnakennar niðurstöður rannsókna á líðan kvenna fyrir blæðingar.
Fyrirlesturinn byggir á doktorsritgerð Herdísar sem hún varði við háskólann í Umeå í Svíþjóð á síðastliðnu ári. Greint verður frá þremur rannsóknum sem allar fjalla um breytingar á líðan heilbrigðra íslenskra kvenna fyrir blæðingar.
Í fyrstu rannsókninni voru konur, valdar af handahófi af Reykjavíkursvæðinu, beðnar um að fylla út spurningalista þar sem þær lýstu líðan sinni fyrir blæðingar síðasta hálfa árið. Í annarri rannsókninni skráði annar hópur kvenna, einnig valinn af handahófi af stór-Reykjavíkursvæðinu, heilsudagbækur sem samanstóðu m.a. af lista yfir 57 einkenni og tilfinningar, daglega í 1-6 tíðahringi. Jafnframt var ítarlegt hálfstaðlað viðtal tekið við hvern þátttakanda þar sem m.a.var fjallað um heilsu hennar. Þriðja rannsóknin var viðtalsrannsókn þar sem leitað var eftir hugmyndum þátttakenda um það hvað fyrirbærið fyrirtíðaspenna er og hvert birtingarform þess er í samfélaginu.
Niðurstöður þessara þriggja rannsókna sem allar skoða sama fyrirbærið með mismunandi nálgun eru um margt ólíkar. Í stuttu máli þá greindu þátttakendur frá miklum breytileika í líðan sinni fyrir blæðingar. Niðurstöður benda til þess að líðan kvenna sé sveiflukennd, á þann veg að þeim líður betur að sumu leyti og ver að einhverju leyti fyrir blæðingar í sama tíðahring. Jafnfram benda niðurstöður til þess að sama konan finni sjaldan fyrir breytingum samfellt í tvo eða fleiri tíðahringi í sama eða samskonar einkenni. Hjá hluta þátttakenda (2-6%) breyttist líðanin þó svo mjög til hins verra að þeir greindust með fyrirtíðaspennu (premenstrual dysphoric dysorder) samkvæmt viðurkenndasta greiningarlíkani sem í dag er notað til að greina fyrirtíðaspennu.
Niðurstöður viðtalsrannsóknarinnar voru þær helstar að þátttakendur nota hugtakið „fyrirtíðaspenna“ til að lýsa algengri, eðlilegri og mjög breytilegri reynslu sem konur takast á við með notkun meðferðarúrræða sem almennt eru notuð í nútíma samfélagi til að takast á við lífið. Ályktað er að þátttakendur hafi tekið upp læknisfræðilega skilgreint hugtak,fyrirtíðaspennu, og aðlagað að því sem þær telja eðlilegt fyrirbæri hjá konum. Þátttakendur greindu frá því að þeir upplifi almenna umræðu, aðallega í fjölmiðlum og hjá karlmönnum, um fyrirtíðaspennu mjög neikvætt og almennt á þá vegu að verið sé að snúa eðlilegri reynslu kvenna gegn þeim. Frekari úrvinnsla viðtalanna bendir þó til þess að konur taki þátt í að viðhalda þessari neikvæðu umræðu. Í fyrirlestrinum verður leitast við að skýra mismunandi niðurstöður rannsóknanna þriggja.