Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og dósent við Háskólann í Reykjavík, verður með rabb á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum fimmtudag 28. febrúar kl.12-13 í Norræna húsinu. Rabbið ber yfirskriftina Samspil kyngervis, markaðar og ríkis.
Lilja fjallar um bók sína, The Interplay between Gender, Markets and the State, sem birtist nýverið hjá bresku útgáfunni Ashgate. Í bókinni er leitast við að útskýra þann mikla mun sem verið hefur á atvinnuþátttöku kvenna í Svíþjóð, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Einnig greinir hún hvernig samspil vinnumarkaðar og velferðarkerfis hefur mótað stöðu karla og kvenna frá 1960 í þessum þremur löndum.
Lilja mun jafnframt fjalla um hvaða þýðingu atvinnustefna Evrópusambandsins hefur fyrir stöðu karla og kvenna innan aðildarlandanna.