Dagný Kristjánsdóttir tók saman eftirfarandi pistil um pallborð um konur og kvikmyndir sem RIKK og Nordisk Panorama stutt- og heimildamyndahátíðin stóðu fyrir á Hótel Borg þann 27. september 2004.
—
Í fyrradag (27/9) voru pallborðsumræður á stutt- og heimildamyndahátíðinni Nordic Panorama – efnið var Women in film. Við Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður, stýrðum umræðunum en í pallborðinu voru kvikmyndagerðarmennirnir Elisabet Ronaldsdóttir og Tinna Joné frá Svíþjóð. Þar var líka Julie Anderson, fyrrverandi dagskrágerðarstjóri heimildamynda HBO (Home Box Office sem framleiðir m.a. Sex in the City og Sopranos) í Bandaríkjunum. Julie hætti hjá þeim fyrir þremur vikum og starfarn nú sjálfstætt. Auk hennar var Anke Lindenkamp innkaupastjóra stuttmynda frá ZDF/ARTE en fyrri hluti skammstöfunarinnar stendur fyrir ríkissjónvarpið í Þýskalandi og sá seinni fyrir sjónvarpsstöðin ARTE sem er fjármagnað af ríkisfé bæði í Frakklandi.
Þetta var í fyrsta sinn sem pallborðsumræður um þetta efni fara fram á kvikmyndahátíð hér. Sjálft pallborðsformið er svolítið stirt og hæggengt; nokkrar konur sitja með nokkra hljóðnema fyrir framan sig og tala smástund hver, stjórnendur reyna að líma umræðurnar saman og þátttakendur sitja og hlusta – nema þeir komi með spurningar sem of fáir gera. Svona uppákomur kosta samt merkilega mikinn undirbúning og það kom ýmislegt fram sem mig langar til að miðla áfram til ykkar sem ekki komust á fundinn.
Fyrst þetta; Kvikmyndir eru sterkasti miðill samtímans og við sem vinnum með ungu fólki sjáum það upp á hvern dag hve mikil áhrif þær hafa. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir af þeim sem vilja gera myndir. Allir vita að kvikmyndabransinn veltir oft ævintýralega háum fjárhæðum sérstaklega í framleiðslu leikinna kvikmynda í fullri lengd. Allir vita líka að þar sem eru miklir peningar eru mikil völd. Og allir sem hafa komið nálægt bransanum vita að ef menn ná árangri á þessu sviði kostar það mikla hæfileika og hörkubaráttu sem enginn getur verið undanskilinn..
Elísabet Ronaldsdóttir benti á að kvikmyndaiðnaðurinn endurspegli að sjálfsögðu þau valdahlutföll og viðhorf til kynjanna sem ríki í samfélaginu yfirleitt. Þeir fordómar sem fyrir eru séu jafnvel ekki stækkaðir af því að svo hart sé barist um verkefni og peninga. Verkefnin sem konur stinga upp á eru oft talin óáhugaverð af því að þau eru ekki sprottin úr reynsluheimi karla eða jöðruð í honum. Tinna Joné kom líka inn á þetta og sagði að hún hefði viljað gera lokaverkefnið sitt í kvikmyndaskólanum um það sem gerðist ef enginn væri tilbúinn til að þrífa heimilið. Kennararnir hennar voru fljótir að segja henni að slík mynd væri mjög slæm hugmynd. Þó að viðbrögðin væru neikvæð gerði hún myndina samt og drullan hlóðst upp og myndin gerði mikla lukku enda hryllingsmynd.
Julie Anderson sagði að konur í Bandaríkjunum væru að koma sterkar inn sem framleiðendur og það væru margar ótrúlega klárar konur að ryðja sér til rúms þar. Í starfi framleiðandans fælust mikil völd og áhrif, ekki minnst peninga- og mannaráðningarvald og framleiðendurnir væru þeir sem hefðu yfirsýn og stjórnuðu umferðinni. Það væri eins og allir í bransanum væru sáttir við að konur gerðu þetta. Ég gat ekki annað en hugsað til þess að húsmóðir á stóru heimili er einmitt í þessu stjórnunarhlutverki þar sem samræma þarf stundarskrár allra. Hins vegar sagði Julie að konur væru fáar meðal leikstjóra, þegar kæmi að listrænum og hugmyndafræðilegum ákvörðunum virtust karlar kunna því mjög illa að þurfa að taka á móti skipunum frá konum. Svo mörg voru þau orð.
Hún nefndi líka að sum störf innan kvikmyndabransans krefðust mikilla líkamlegra burða, eins og það að bera þungar myndavélar og ljós o.fl. og því væru þau mest unnin af körlum. Hrafnhildur varð nokkuð langleit undir þeirri ræðu enda kvikmyndatökukona m.m. og athugasemdir komu strax úr sal um að kvennamyndir hefðu verið gerðar þar sem sterkar konur báru vélarnar og bent var á að í Japan er mjög mikið af tæknivinnunni á tökustað talið kvennaverk – einkum meðferð þyngstu tækjanna.
Julie og fleiri komu inn á það að konur virtust blómstra í gerð heimildamynda þar sem framleiðslueiningin er minni og samstarfið nánara. Í sama streng tók Sólveig Anspach sem ávarpaði pallborðið og gestina á hvíta tjaldinu. Hún ætlaði að vera í pallborðinu, varð hins vegar að fara til Frakklands sama dag en það kom ekki að sök því að Hrafnhildur tók upp viðtal við hana sem við sýndum á Borginni. Sólveig sagðist hafa hlotið inngöngu í mjög eftirsóknaverðan ríkisskóla í kvikmyndagerð í Frakklandi, 40 nemendur voru teknir inn, þar af 30 konur það ár. Þetta hafði aldrei áður gerst og venjulega höfðu hlutföllin verið 37 karlar á móti 3 konum. Eftir að þessar 30 konur útskrifuðust hafa þær komið mikið við sögu í franskri kvikmyndagerð og meðal annars þess vegna væri mikil og oft skapandi umræða um konur og kvikmyndir, kvennamyndahátíðir og –málþing í Frakklandi nú um stundir. Hún sagði að hún fyndi oft fyrir því að það væru ákveðin forréttindi að vera kona og búa til heimildamyndir því að valdamiklir og fundamentalískir karlar tæku ekki mark á konu með myndavél og létu allt flakka. Sömu reynslu lýsti Hrafnhildur sem hefur kvikmyndað í heimi karla, herforingja og stríðsherra þar sem konur fá aðgang sem karlar fá ekki af því að þær eru ekki álitnar ógnun. Hún lýsti því líka að leigubílstjóri í Beirút var allt í einu farinn að daðra við myndavélina af því að kona var á bak við hana en hvort það sýndi hans bestu hliðar skal ósagt látið. Utan úr sal var sagt frá kvikmyndahátíð sem haldin var í Stokkhólmi í fyrra fyrir hvíta, gagnkynhneigða karla! Þetta var gert í gríni til að benda á þá staðreynd að meiri hluti kvikmyndahátiða sýnir myndir eftir karla um karla fyrir konur og karla. Í framhaldi af því má minna á að draumur Vigdísar Finnbogadóttur hefur lengi verið um alþjóðlega ráðstefnu um málefni kvenna, haldna af körlum fyrir karla. Í framhaldi af því má nefna að aðeins tveir karlmenn sátu þennan fund á Hótel Borg í gær.
Anke Lindenkamp frá Þýskalandi sagði að það hefði komið sér á óvart að þegar hún fór að athuga tölur um kaup á stuttmyndum á síðustu 5 árum til ZDF/ARTE að aðeins um 20% hefðu verið gerðar af konum. Umræða spannst út af því hvort hægt væri að tala um eitthvað sem kalla mætti kvenlegt sjónarhorn eða kvenlega fagurfræði. Pallborðið var sammála um það að það væri óneitanlega erfitt að benda á eitthvað slíkt. Hrafnhildur benti á að oft væri það frekar fólgið í vali viðfangsefna en konum þættu oft aðrir hlutir athyglisverðir en körlum. Þær vildu líka sýna fjöllbreytileika kvenna og aðra hópa en karlar vildu helst horfa á en það eru samkvæmt Sólveigu Anspsach: „ungar konur með stór brjóst og ljóshærðar.“ Ekki illt orð um þær persónulega heldur um það vægi sem þær hafa fengið hingað til á hvíta tjaldinu. Sólveig sagðist gjarna velja rúmlega fertugar konur í öllum stærðum og gerðum og henni þætti vænt um fólkið sem hún væri að mynda og reyndi að sýna það og lýsa af blíðu og virðingu. Hrafnhildur þótti hins vegar ekki vönd að kvenvali sínu þegar hún sýndi 55 ára brjósthaldaralausan, arabískan feminista þvo buxurnar sínar með drullusokki. Fjölbreytileiki kvenna skiptir máli og mikilvægt að kvikmyndirnar sem eru svo sterkur miðill endurspegli það því að; „Art influences life and life influences art.“ eins og þar stendur.
Þegar Anke og Julie voru spurðar um hvernig það væri líkt og ólíkt með því að velja dagskrá fyrir einkarekna sjónvarpssstöð annars vegar og ríkisrekna hins vegar kom í ljós eins og ætla mátti að krafan um arð er meiri svipa yfir höfði fólks í einkageiranum en þeim ríkisrekna. Á hvorugum staðnum er kvóti á efni sem höfðar til kvenna eða er framleitt af konum. Í Bandaríkjunum eru hins vegar til sérstakar kapalstöðvar sem höfða til kvenna eins og Lifetime Network for Women og Oxygen sem Oprah Winfrey á.
Allar konurnar sem töluðu voru sammála um að samtök, samheldni – “networking” – skipti óheyrilega miklu máli í kvikmyndabransanum. Það væri algjört „alfa og omega“ þess sem vildi gera eitthvað og verða eitthvað að þekkja rétta fólkið, bindast, tengjast og „networking“ meðal karla væri mjög áberandi á kvikmyndahátíðum eins og þessari. Sumar sögðu að það væri ekkert við því að segja. Það væri ekkert að því að strákarnir tengdust og töluðu um það sem á þeim brynni heitast og að vinnuumhverfið mótaðist af því bæði félagslega og faglega og í mati og mælikvörðum. EN – það væri staðreynd að konur ættu ekki aðgang að þessu hópefli og þeirri jákvæðu mismunun sem fylgdi henni. Hvað eiga þær þá að gera? Margar reyna að verða “ein af strákunum” og aðlaga sig en það er ekki hægt sagði ein úr salnum. Bransinn væri ekki lagaður að konum og þær yrðu að laga hann að sér! Þær gerðu betur í að styrkja hver aðra og styrkja og undirstrika sinn vilja og þarfir, sín áhugamál, áhyggjuefni, gleði og sorgir. Þær ættu að styrkja hver aðra – “empowerment” yrði að koma innan frá og það yrði ekki gert með eilífu naggi og undirstrikunum á því hvað maður væri möguleikalaus heldur með því að bera saman bækur sínar og berja í borðið. Þetta undirstrikaði Elisabet Ronaldsdóttir í sínu innleggi.
Og þetta tengdi lokin beint við upphafið en þar sýndum við 3. mín. stuttmynd eftir Anna Erlandsson sem heitir Glenn the great runner. Þetta er stílfærð og flott teiknimynd sem sýnir glæsilegan maraþonhlaupara sem hleypur löngum skrefum eftir brautinni en hinu megin við áhorfendurna hleypur kona hans enn lengri skrefum á háum hælum og er alltaf komin aðeins á undan honum á áningastaði til að gefa honum að drekka og rétta blauta svampa. Þegar hann kemur í mark er hún þar komin til að taka mynd af honum og eftir að hún hefur stutt hann á verðlaunapallinn klappar hún rosalega! Stuðningurinn skiptir sem sagt meginmáli og þar sem er ólíklegt að við eigum svona konur og þar sem hann fæst aðeins í undantekningartilfellum frá strákunum verðum við að fá hann frá okkur sjálfum!
Viva la revolution!
Dagný Kristjánsdóttir