Föstudaginn 20. febrúar flytja Annadís Gréta Rúdólfsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir, lektorar á menntavísindasviði Háskóla Íslands, fyrirlestra um ömmur sínar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12-13. Fyrirlestur Önnudísar Grétu nefnist „Óþekk(t)ar ömmur“ en Berglindar Rósar „Makalausar efristéttarformæður í baráttu við feðraveldið.“
Hugmyndin um ævisöguna mótaðist út frá karllægum viðmiðum valdakerfisins þar sem ævisagan hafði það meginhlutverk að tryggja körlum úr ákveðinni stétt orðstír (Bourdieu, 2007) og í þeim sögum fengu konur í besta falli það hlutverk að varpa ljósi á drengskapinn, gleðimanninn eða gáfumanninn. Konur voru til hliðar við karllæg viðmið samfélagsins en sögur af ömmum og formæðrum okkar varpa ljósi á rótgrónar tilfinningahlaðnar hugmyndir um hvernig sómakærar konur eiga að haga sér (Skeggs, 2004).
Berglind Rós og Annadís Gréta fjalla um ömmur sínar sem komu úr mismunandi lögum samfélagsins. Þær gegndu hinum hefðbundnu hlutverkum móður og eiginkonu, a.m.k. um tíma, en einnig launuðum störfum, allt frá því að vera hljóðfæraleikarar, verkakonur og matseljur. Uppruni þeirra var ólíkur, frá hefðarslektum borgarastéttar, efri lögum sveitavaldsins, til lausaleiksbarna. Þær ögruðu viðteknum hugmyndum um stöðu konunnar á tímabilinu 1880-1980 en leiðirnar að því mörkuðust af staðsetningu þeirra í stigskiptu kerfi samfélagsins og útsjónarsemi við að láta drauma sína rætast en um leið reyna að uppfylla kröfur sem mæta þurfti til að teljast virðingarverðar konur.
Það er lítið til af opinberum gögnum um líf þeirra en víða leynast vísbendingar um daglegt líf, drauma þeirra og væntingar, m.a. í skáldsögum um eiginmenn þeirra (þ.á.m. Ólafur Jóhann Ólafsson, 2001), ljósmyndaalbúmum (Hirsch, 1997) og minningum aðstandenda. Fyrirlesarar munu að lokum rýna í hvernig saga kynslóðanna hefur mótað fræðikonurnar, fulltrúa núlifandi kynslóðar. Þeirra saga er um leið okkar saga.
Heimildir sem Annadís Gréta og Berglind Rós styðjast við eru m.a. Sketch for a self-analysis eftir Pierre Bourdieu, Family frames: Photography narrative and postmemory eftir Marianne Hirsch, Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Class, self, culture eftir Beverley Skeggs.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.