Hér í dag hefur komið fram ýmislegt um stríð, hernað og konur, margt sem við höfðum eflaust ekki leitt hugann að áður. Enda eru þetta atriði sem einhverra hluta vegna þykja ekki skipta máli í almennri umræðu um stríð og frið og eru því ekki tekin fyrir sem skyldi. Það er vonandi að opin umræða, eins og sú sem fer fram hér í dag, verði til að opna huga stjórnvalda, fjölmiðla og almennings fyrir þessu brýna málefni.
Það sem ég ætla að ræða hér í dag er efni sem ekki hefur mikið verið fjallað um en allir ættu þó að kannast við. Það er karlmennska hernaðarbröltsins og þau áhrif sem sú kynbundna einokun hefur á orðræðu stríðs sem og framgöngu á vígvellinum sjálfum.
Það fer ekki á milli mála að stríð og hernaður er karlaheimur. Það eru karlmenn sem taka ákvarðanir um að fara í stríð, það eru karlmenn sem heyja orusturnar, það eru karlmenn sem ákveða hvenær skuli hætta og það eru karlmenn sem ákveða hverjir eftirmálar styrjaldarinnar skuli verða. Utanríkis- og forsætisráðherrar ríkja eru nánast undantekningarlaust karlmenn. Sé litið á NATO ríkin sem dæmi kemur í ljós að af 19 aðildarríkjum eru 2 konur utanríksráðherrar og 2 konur varnarmálaráðherrar, engin kona er forseti eða forsætisráðherra í NATO.
Engar konur gegna stöðu fastafulltrúa, herráðsforingja eða fulltrúa hersins.
Af 23 milljónum hermanna í heiminum í dag eru rétt um 2% kvenmenn. Í einungis 6 af hátt í 200 ríkjum heimsins eru konur yfir 5% herliðsins en þá verður að hafa í huga að flestar gegna þær hefðbundnum kvennastörfum, s.s. ritarastörfum eða hjúkrun. Sérstakar árásarsveitir herja, sem telja nokkrar milljónir hermanna, samanstanda 99,9% af karlmönnum. Í friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna voru konur innan við 2% hermanna þegar starfsemin var hvað mest á tíunda áratugi síðustu aldar.
Þá er vert að spyrja sig hvaða áhrif þessi öfgakarlmennska hefur á hernað og hermennsku. Í erindi mínu ætla ég að sýna fram á hvernig karlmennskan birtist í orði og gerðum á vígvellinum og hvernig hugmyndir um samskipti kynjanna, karl versus kona, yfirboðari versus undirsáti, eru yfirfærðar á hernaðinn.
Herinn er e.k. micro-cosmos karlmennskunnar. Hann á heima utan við venjulegt samfélag bæði í hugmyndum og rúmi. Í hernum eru karlmannleg gildi í hávegum höfð, þar verða drengir að mönnum og hver og einn verður að standast sína manndómsraun. Umbreytingin, þ.e. herþjálfunin felst í því að svipta nýliðann öllum einstaklingseinkennum og „mjúkum“ eiginleikum, s.s. blíðu og veiklyndi, til að byggja upp sterkan, hugrakkan og harðan hermann. Einungis sú hegðun er prýðir góðan hermann er leyfð þar sem áherslan er lögð á aga, hugrekki og þrek að ógleymdri árásargirninni. Stigveldið er mjög skýrt innan hersins og er það meginskylda hvers hermanns að hlýða yfirmanni sínu í einu og öllu. Þessi valdastaða er kynbundin og eru undirsátarnir kvenkenndir sem kellingar, píkur eða álíka.
Þessi yfirfærsla á táknrænum samskiptum kynjanna birtist þó hvað skýrast í hernaðinum sjálfum. Það er nefnilega eins með hermennskuna og karlmennskuna, til réttlætingar á eðli sínu þarfnast þau bæði einhvers sem skilgreina má sem „hina“, þ.e. andstæðing eða andeðli. Um leið og hermaðurinn er byggður upp sem erkikarlmaður er andstæðingurinn gerður óæðri með því að kvengera hann. Hernaður fær að láni og yfirfærir hugmyndina um ójafna stöðu kynjanna yfir á „okkur“ og „þá“, samherja og óvin, yfirboðara og undirsáta.
Í ítarlegri rannsókn Joshua Goldstein um kyn og stríð nefnir hann ótalmörg dæmi frá fornöld til okkar tíma um þessa kynbundnu yfirskrift hernaðar. Ég ætla að leyfa mér að nefna sum dæmanna á frummálinu, þ.e. ensku, vegna þess að þau er oft erfitt að þýða þannig að merkingin haldi sér.
Á hernaðarmáli er óvinurinn t.d. mjög oft kvenkenndur. Þannig má nefna dæmi úr Persaflóastríðinu þegar bandarískur orrustuflugmaður tilkynnir til höfuðstöðvanna um að hafa skotið niður íraskan, karlkyns, orrustuflugmann, þar sem hann segist hafa „cold smoked the bitch“ – ekki t.d. the bastard. Þá tók ónefndur öldungardeildarþingmaður Bandaríkjanna upp setninguna „slam, bam, thank you ma’am“ með því að skipta út Saddam fyrir ma’am í sama stríði.
Sigraðar þjóðir eru einnig kvengerðar með því að svipta þær karlmennsku sinni. Þetta felst í útrýmingu karlmanna þjóðarinnar og nauðgun og þrældómi kvenna hennar. Dæmi þessa var t.d. að finna í stríðunum á Balkanskaga og eru voðaverkin í Srebrenica skýrasta dæmið þar sem karlmenn voru valdir úr hópnum og teknir skipulagt af lífi og konum var nauðgað. Það sama var einnig uppi á teningnum í Kosovo þar sem albanskir karlmenn voru skipulagt teknir af lífi.
Gelding er annað dæmi um að kvengera sigraðan óvin. Með því að svipta óvininn karlmennsku sinni í bókstaflegum skilningi verður hann kvenlegur og þar með óæðri. Gelding á óvinum, lífs eða liðnum, tíðkaðist í fornöld m.a. meðal Kínverja, Persa, Egypta og forfeðra okkar víkinganna. Nú á dögum má finna dæmi þessa í orðræðu. Þannig sagði Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti árið 1968 um ákveðinn hernaðarsigur Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu: „I didn’t just screw Ho Chin Minh, I cut his pecker off!“ Hernaðaráætlun Colin Powell, sem þá var yfirmaður bandaríska herráðsins, gegn íraska hernum árið 1991 fólst í því að „sker’ ann fyrst undan“ og drepa svo.
Þá má nefna nauðgun karla á körlum sem enn eitt dæmið. Þetta var mikið iðkað í fornöld, s.s. meðal Grikkja, en dæmi kynferðislegrar misnotkunar á körlum er einnig að finna í Bosníu og Kosovo. Þá get ég nefnt það að á sumar sprengjur Bandaríkjamanna í Persaflóastríðinu var skrifað „Bend over Saddam.“
Þá er að sjálfsögðu ónefnd nauðgun á konum sem er skýrasta og hrottalegasta dæmið um valdníðslu og kúgun kynjanna og hefur gengið hönd í hönd með styrjöldum í gegnum söguna. Um það hefur Lilja þegar fjallað og mun ég ekki fara nánar út í það hér. Ég leyfi mér þó að nefna sem dæmi um þörfina á hugarfarsbreytingu gagnvart nauðgun í alþjóðakerfinu að yfirmaður friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna í Bosníu, Yasushi Akashi, léta hafa það eftir sér að „boys will be boys“ þegar hann var inntur álits á ásökunum um kynferðislega misnotkun hermanna SÞ á bosnískum konum.
Að lokum ætla ég að fjalla stuttlega um táknfræði vopna sem má segja að sé fræðigrein út af fyrir sig. Það hafa eflaust flestir heyrt um samlíkinguna milli byssu og kynfæra karlmanna. Goldstein vitnar t.d. í hermann úr Víetnam stríðinu sem sagði að sumum hafi þótt það að ganga með byssu líkt og að vera sífellt með standpínu. Það var hrein kynferðisleg upplifun í hvert sinn sem manni gafst að taka í gikkinn.
Í grunnþjálfun bandarískra hermanna fá þeir að kyrja: this is my rifle (halda á loft riffli), this is my gun (benda á kynfærin); one’s for killing, the other’s for fun.
Svo virðist sem það séu einhver brengluð tengsl á milli þess að þrýsta kynfærum sínum djúpt inn í líkama annars og að þrýsta morðvopninu (t.d. hníf eða byssusting) inn í líkama fórnarlambsins. Þessi samlíking typpis og vopns hefur haldist eftir því sem tækninni hefur fleygt fram frá spjótum til loftskeyta.
Þannig hefur verið fjallað um aðferðir Pentagon til að fá Öldungadeildina til að samþykkja sífellt hærri fjárútlát til hernaðarmála í Kalda stríðinu. Þá var farið með líkön af flugskeytum á fundi Öldungadeildarinnar þar sem sovésku skeytin voru rauð og þau bandarísku blá. Bandarísku sprengjurnar voru minni og nákvæmari en líkönunum fylgdu þau skilaboð að stóru rauðu flugskeytin ógnuðu litlu bláu flugskeytunum okkar. Það er óþarfi að taka það fram að Pentagon fékk ávallt allan þann pening sem það vildi.
Kjarnorkusprengjur eru alltaf karlkenndar. Sprengjurnar sem féllu á Japan hétu litli strákurinn og feiti karlinn. Sama tungumál er í gangi hjá kjarneðlisfræðingum sem líkja tilraunum með sprengjurnar við fæðingar. Ef sprengingin misheppnast er hún stelpa en strákur ef hún heppnast. Í þessu samhengi er athyglisvert að benda á að flugvélin sem flutti sprengjuna sem var varpað á Hiroshima var skírð í höfuðið á flugmanni vélarinnar.
Í erindi mínu hér í dag hef ég farið yfir víðan völl og fjallað um efni sem hefur mismikla skírskotun til Íslendinga þar sem við teljum okkur standa utan við þessi mál, herlausa þjóðin. Þetta kemur okkur hins vegar við, líkt og allt annað sem gerist á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst með aukinni þátttöku Íslendinga í alþjóðlegri friðargæslu. Orðræðugreining er ein leið til þess að auka skilning á þeirri hegðun sem birtist á vígvellinum. Einungis með umræðu og skilningi er hægt að ná fram úrbótum. Maður skyldi ætla að aukin hlutdeild kvenna í öryggismálum, s.s. sem stjórnmálamenn, hermenn og starfsmenn alþjóðastofnana yrði til þess að minnka þessa kynferðislegu vídd átaka og þá vonandi að minnka átökin sjálf. Elisabeth Rehn og Ellen Johnson Sirleaf hvetja Sameinuðu þjóðirnar til að fara eftir samþykkt 1325 í öryggisráðinu og auka hlutdeild kvenna í friðarferlinu. Ég skora hér með á íslensk stjórnvöld að fara að tillögum þeirra og leggja sitt af mörkum til að draga úr kynbundinni nálgun á friðar- og öryggismál með því að auka meðvitað aðkomu kvenna að þeim.