Guðný Hallgrímsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, flytur erindið „og legge mig frem til noget sem i fremtiden kunne blive nyttig for Island“, fimmtudaginn 2. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Guðný er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hennar í náminu er Már Jónsson, prófessor í sagnfræði.
Erindið byggist að hluta til á doktorsverkefni Guðnýjar um iðnmenntun íslenskra kvenna í Danmörku á 18. öld. Meginefni þeirrar rannsóknar er umfjöllun um fimm konur sem allar voru á sama tíma í Danmörku við nám í vefnaði og spuna. Í skjalasafni rentukammers hafa varðveist sendibréf frá þeim öllum sem veita ágæta innsýn í líf þeirra, bæði meðan á námstímanum stóð ytra, en líka eftir að þær komu heim til Íslands. Ætlunin er meðal annars að kanna hvort þessum konum hafi tekist að skapa eigin örlög innan þess þrönga ramma sem athöfnum þeirra voru settar á 18. öld?
Í erindinu verður kastljósinu einkum beint að einni af þessum fimm konum, Ragnheiði Böðvarsdóttur, sem fæddist í Vestmannaeyjum árið 1744. Af konunum fimm, sem teknar verða fyrir í sjálfu doktorsverkefninu, hafa flest bréfin varðveist frá Ragnheiði. Bréf hennar eru auk þess ítarlegri og veita því færi á að skilja betur hvernig konur réðu ráðum sínum og tókust á við persónuleg áföll. Í bréfunum segir Ragnheiður m.a. frá örlagaríkum flótta í kjölfar Skaftárelda, hungurdauða fjölskyldunnar og djarfri ákvörðun sinni að fara einsömul til Kaupmannahafnar. Haustið 1785, þegar Ragnheiður var komin til Hafnar, skrifaði hún bréf til rentukammers og tjáði vilja til að læra eitthvað sem í framtíðinni gæti gagnast Íslandi. Ragnheiði bauðst að nema spuna og starfaði við fagið um nokkurt skeið ytra. Í erindinu verður meðal annars fjallað um Danmerkurdvöl Ragnheiðar sem markaðist af fátækt, bágu heilsufari og lélegum aðbúnaði. Af bréfum Ragnheiðar má hins vegar sjá að hún veigraði sér ekki við að andmæla yfirboðurum, hagræða sannleikanum, rjúfa samninga eða að gera tilkall til réttinda sem að öllu jöfnu voru síður ætluð konum en körlum.
Erindið er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.
Finndu viðburðinn á Facebook!