Dr. Giti Chandra

Dr. Giti Chandra er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Nafnlausi femínistinn: Atbeini, áföll og mennska í #MeToo-hreyfingunni“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 6. september, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Einn umdeildasti þáttur MeToo-hreyfingarinnar er birting á nafnalistum gerenda. Það fólk sem bætt hefur nöfnum á listana hefur oft kosið að koma ekki fram undir nafni. Ýmist er litið á að þessir nafnlausu aðilar séu veikgeðja og illgjarnir sem skýli sér á bak við nafnleysi í þeim tilgangi að hefna sín á þeim gerendunum sem nefndir eru eða að um sé að ræða veikgeðja, andlitslausa einstaklinga sem fastir eru í fórnarlambshlutverkinu.

Fyrirlesturinn setur þessa umræðu í samhengi við áfallafræði og skoðar hvaða áhrif hún hefur á hugmyndina um atbeina og fórnarlamb og býður upp á aðra, femíníska leið án aðgreiningar, til að hugsa um nafnleysi og mennsku.

Dr. Giti Chandra er starfandi fræðimaður hjá Jafnréttisskóla Háskóla SÞ (UNU-GEST) og kennir við Háskóla Íslands. Hún var áður dósent við enskudeild St Stephen’s College í Delhi á Indlandi og kennari við Rutgers University, New Jersey í Bandaríkjunum, þar sem hún lauk doktorsverkefni sínu um konur og ofbeldi.

Dr. Chandra er höfundur bókarinnar „Narrating Violence, Constructing Collective Identities: To witness these wrongs unspeakable“ (Macmillan UK/US: 2009) og vinnur nú að bókinni “In Visible Texts: Hidden and Spectacularised Violence in Colonial India and Africa” og þá er hún annar ritstjóra greinaheftis um MeToo-hreyfinguna sem RIKK gefur út. Dr Chandra var formaður kærunefndar um kynferðislega áreitni við St. Stephen’s College, ráðgjafi jafnréttisnefndar og óháður sérfræðingur kærunefndar um kynferðisáreitni við Indian Institute of Mass Communication.

Fyrirlesturinn er fluttur á ensku og er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Finndu viðburðinn á Facebook!

***

Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #metoo-byltingarinnar frá margvíslegum sjónarhornum.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn.