(Erindi Þorláks byggði á eftirfarandi grein sem birtist í tímaritinu Sögnum 2001).

Inngangur
Kvenímyndir þjóða eru margar og kunnar, nefna má Marianne í Frakklandi, Germaníu í Þýskalandi, Frelsisstyttuna í Bandaríkjunum og síðast en ekki síst Fjallkonuna hér á Íslandi. Tilgangur þessara ímynda virðist í fyrstu fjarska einfaldur, þ.e. sem merki lands og lýðs í umheiminum sem og tákn sameiningar heima fyrir. Þetta á einkum við í Frakklandi sem á sér ekkert eiginlegt skjaldamerki og er Marianne (að undanskildum þrílita fánanum) án efa frægasta táknmynd franska ríkisins.

Í aðdraganda styrjalda, framvindu þeirra og eftirmálum, hafa öll sjónræn tákn öðlast gríðarlegt vægi á tuttugustu öldinni. Stórveldi líkt og þriðja ríkið og Sovétríkin byggðu tilvist sína og lýðhylli á sýnilegum táknmyndum. Enn í dag nota Bandaríkjamenn, sem eru nokkurs konar þjóð þjóðarbrota, myndrænar táknmyndir til að sameina lýðinn. Hér verður þó einungis fjallað um kvenímyndir og notkun þeirra í styrjaldarrekstri á tuttugustu öld.

Fyrst verður athugað hvernig slíkar ímyndir eru notaðar til að undirstrika stöðu þjóðar sem fórnarlambs. Þá eru dregnir fram glæpir gegn þjóðinni, eiginlegir eða ímyndaðir, í nútíð og fortíð, og litið á þá sem svívirðu við kvenímyndina. Ekki er um eins ímyndir að ræða en algengastar eru þó meyjarímyndin og móðurímyndin.

Kvenímyndir eru sömuleiðis tengdar hvers kyns kynþáttahyggju sem hefur verið stöðugt tilefni styrjalda á liðinni öld. Þar sem konur geta einar borið barn undir belti eru þær fyrir vikið útvörður ,,hreinleika“ kynstofnsins. Því verður að gæta þeirra sérstaklega fyrir utanaðkomandi ,,mengun“ sem og að undirstrika móðurhlutverk þeirra til uppbyggingar kynstofnsins heima fyrir.

Þegar áróðurinn um tímgunarhlutverk konunnar hefur öðlast slíka ofuráherslu má íhuga í framhaldi hvað í stríði henti best til að brjóta niður slík helg vé. Svarið er iðulega kynferðisglæpir hvers konar, fjöldanauðganir, limlestingar á kynfærum kvenna og nauðganir með getnað að markmiði. Voðaverkin verða að fullnaðarsigri á hinum sigraða kynstofni eða ríki. Hin svívirta kona verður þannig með sanni táknmynd getuleysis karlmanna til að verja eigið land og hin upphafna kvenímynd ríkisins breytist í fallna konu, hóru!

Því er athyglisvert að skoða orsakasamhengið og athuga hvort kvenkenning ríkisins sé ekki upphaf og orsök þeirra hroðaverka sem iðulega sigla í kjölfar styrjalda. Þar sem karlmenn hafa barist í styrjöldum nær eingöngu mest alla 20. öld og eru iðulega upphafsmenn þeirra, verður að velta fyrir sér hvort hin upphafna mynd sé því ekki merki um dramb þeirra og sjálfsánægju en hin fallna kona merki um vanmátt og óöryggi.

Eðlilegt er að spyrja hvort notkun slíkrar ímyndar sé í eðli sínu glæpsamleg þar sem hún er órofa tengd kynferði hennar og svívirðu sem henni er sýnd. Ekki er hægt að ætla að nauðganir í stríði hyrfu ef slíkum ímyndum væri kastað fyrir róða. Á hinn bóginn verður orsakasamhengið allt að skoðast og sjá hvort þær styrjaldir sem lyktað hefur með miklum ofbeldisglæpum gegn konum hafi ekki svipuð einkennismerki þegar litið er til orðræðna og táknmynda áróðurs.

Fórnarlambið

Til stríðsæsinga er staða hóps, ríkis eða ríkja iðulega máluð sterkum litum. Stríðsæsingamaðurinn dregur einatt fram stöðu „okkar“ sem fórnarlambs gegn tilhæfulausum árásum „þeirra“. Hættan sem steðjar að konum ríkisins er oft og tíðum ekki eiginleg heldur byggð á liðnum atburðum. Sá var hátturinn bæði í Króatíu og Serbíu þegar æst var til stríðs í upphafi tíunda áratugarins að sjónvarpsstöðvar sýndu iðulega myndir af hroðaverkum hvors annars í heimsstyrjöldinni síðari. Ennfremur sýndu Serbar til áróðurs myndbandsupptökur af nauðgunum þar sem serbneskar konur áttu að vera fórnarlömb Bosníumanna eða Króata, þegar þessu var í raun öfugt farið og Serbar voru gerendur gagnvart öðrum þjóðarbrotum.

Ímynd ríkisins sem fórnarlambs verður því oft í formi hinnar svívirtu meyjar, sem er táknmynd hins hreina og flekklausa sem verður fyrir tilhæfulausri og niðurlægjandi árás. Slíkar ímyndir voru til dæmis notaðar í heimsstyrjöldinni fyrri þegar Þjóðverjar höfðu að engu hlutleysi Belga og voru næstum búnir að sigra Frakka. Þá var Belgía iðulega sýnd myndrænt í dagblöðum, dreifiritum og veggspjöldum sem unglingsstúlka sem lá grátandi og svívirt á gólfinu er þýskur hermaður yfirgefur vettvang glæpsins. Önnur veggspjöld sýna Marianne hina frönsku á flótta undan lostafullum prússneskum hermanni með skotvopn í hendi. Í þessum áróðri fólst ákveðin uppgjöf því að í honum fólst viðurkenning á hernaðarlegum yfirburðum Þjóðverja. Hins vegar með því að kvenkenna fórnarlambið átti að sýna hvernig andlegir yfirburðir Frakka (sbr. að listagyðjurnar eru konur) urðu fórnarlamb óheflaðs þýsks vopnavalds.

Einnig er hægt að telja öðrum þjóðríkjum trú um að þau séu fórnarlömb óréttar og ofbeldis til þess að veikja samstöðu bandalagsþjóða. Þetta reyndu Þjóðverjar í síðari heimsstyrjöldinni við Maignotlínuna áður en þeir réðust inn í Frakkland. Þá voru æði margir breskir hermenn staðsettir í Frakklandi en aðbúnaður franskra hermanna við línuna var mjög slæmur. Þjóðverjar komu því upp gríðarstórum skiltum í augsýn Frakkanna þar sem stóð: ,,HERMENN Í NORÐURHÉRUÐUNUM, LOSTAFULLIR BRESKIR HERMENN ERU AÐ SÆNGA HJÁ KONUM YKKAR OG NAUÐGA DÆTRUM YKKAR“.

Fyrrnefnd dæmi um áróður Frakka í fyrri heimsstyrjöldinni var að einhverju leyti byggður á hroðalegum sögum um meðferð þá er franskar konur máttu sæta af Þjóðverjum. Sannar eða ósannar sögur um kviðristur á vanfærum konum, boltaleikjum með kvenmannsbrjóst, auk annarra limlestinga, hafa án efa eflt hefndarþorsta og stælt baráttuhug franskra hermanna. Fórnarlambið er fullkomnað á klámfenginn og hryllilegan hátt og það í formi konu. Þannig getur hin svívirta kona orðið ástæða enn meiri föðurlandsástar líkt og kemur fram í orðum rússneska rithöfundarins og þjóðernissinnans Vasilii Rozanov (1856-1919): „Það er ekkert afrek að elska gifturíka og víðfeðma fósturmold [móðurland]. Það er þegar hún er aum, lítil, auðmýkt, jafnvel heimsk og jafnvel siðspillt að við eigum að elska hana. Einmitt nákvæmlega þegar ,,móðir“ okkar er ölvuð, þegar hún lýgur, þegar hún flækist í lastalíf, sem við eigum ekki að yfirgefa hana.“

Áður hefur verið nefnd söguleg skírskotun til liðins óréttar sem oft og einatt er notuð í áróðri fyrir stríði. Þá er oft ekki endilega vísað í neinn einn ákveðinn liðinn atburð heldur hið eilífa fórnarlambshlutverk líkt og gert var í Serbíu á tíunda áratuginum. Þannig er saga landsins öll skrifuð að nýju með það að augnamiði að fórnarlambshlutverkið komist glögglega til skila. Í áróðri er því lagt að jöfnu það óhæfuverk sem gerðist í gær og það sem framið var fyrir mörgum öldum. Ekki er alltaf auðvelt að þekkja markmið áróðursins en: Sá sem greinir áróður leitar að hugmyndafræði sem bæði í orðræðu sinni og myndrænni framsetningu endurspeglar þær deilur sem fyrir voru, auk liðinna atburða, hvernig vísað er í nútímanum til ákveðins gildismats, auk þess að leita markmiða og raunveruleika framtíðar. Endurómur táknmynda fortíðar hvetur fólk til þess að tengja hugmyndir sem sátt er um í þjóðfélaginu við markmið áróðursmannsins núna og í framtíðinni.

Ekki er hægt að svívirða fórnarlambið nema það hafi einu sinni verið stolt, frekar en hægt er að svívirða fósturmoldina nema hún megi muna glæstari daga. Því er mikilvægt að skoða hlutverk hinnar upphöfnu konu, tákn fósturmoldarinnar.

Hin upphafna kona

Kvenímynd ríkja er dyggðum prýdd kona, annað hvort í líkingu við ástríka móður eða óflekkaða mey. Tengsl móður við jörðina eru ótvíræð og kemur þetta meðal annars fram í áróðurslist þriðja ríkisins: ,,Ef karlmaðurinn var sýndur sem drottnari nátúrunnar þá var konan sýnd sem náttúran sjálf….Konan var hlutur, hlutverk hennar auðmjúkt og á hana átti að líta sem hana ætti að frjóvga.“ Svipuð tákn voru notuð meðal þjóðernissinna í Króatíu í sjálfstæðisbaráttu þeirra þar sem myndlíkingar svo sem ,,móðir ættjörð“, ,,móðir uppalandi“ og ,,móðir jörð“ voru notaðar um Króatíu og lögðu þjóðina að jöfnu við líffræðilega tímgunarvirkni kvenna sem og dulræn tákn foldarinnar. Fornum gyðjum frjósemi og akuryrkju (Demeter/Ceres) hefur verið fengið móðurhlutverkið, sökum frjósemishlutverks beggja og loks fengið það hlutverk að vera táknmynd þjóðar.

Meyjarímyndir líkt og Marianne, Frelsisstyttan og Jóhanna af Örk eru táknmyndir háleitari hugsjóna, fórnfýsi og fráhverfu frá flokkadráttum. Tilgangur þeirra er að persónugera göfugar hugsjónir lands og lýðs líkt og frelsi, jafnrétti og bræðralag gagnvart vá erlends og rustafengins árásarliðs. Einnig var slíkum ímyndum ætlað að höfða til kvenna svo að þær legðu sitt af mörkum til hergagnavinnslunnar líkt og í bandarísku áróðursmyndinni The Hidden Army sem lýkur með því að sýna frelsisstyttuna með orðunum „Það tekur engin þessari konu fram.“ Slík skilaboð ber að skilja sem svo að konur velti fyrir sér hvort framlag þeirra til styrjaldarinnar sé nægt auk þess sem það minnir þær á til hvers er barist.

Það er þó athyglisvert að meyjarímyndin, sérstaklega hin svívirta, virðist eiga sér takmarkaðan tíma í styrjöld. Sú virðist að minnsta kosti hafa verið raunin í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni en slíkar ímyndir voru einkum notaðar í upphafi styrjaldarinnar þegar Frakkar voru nær sigraðir. Eftir því sem styrjöldin dróst á langinn hefur þurft árásagjarnari og sterkari ímyndir til að efla baráttuþrek. Móðurímyndinni er ekki einungis ætlað að minna karlmenn á vöxt og viðgang þjóðarinnar og kynstofnsins gagnvart erlendri vá heldur á hún líka að minna þá á að með því að berjast eru þeir að þakka fyrir gott uppeldi og ástúð móðurinnar með því að verja hana árás. Ef móðirin er landið og þjóðin er verið að þakka landinu og þjóðinni fyrir að uppfóstra okkur líkt og sálgreinirinn J.C. Flugel bendir á:

Okkur er tamt að líta á föðurland okkar sem mikilfenglega móður sem fæðir, nærir, verndar og þykir vænt um syni sína og dætur og innrætir þeim ást og virðingu fyrir sér og hefðum sínum, siðum og stofnunum en í staðinn eru öll börn hennar tilbúin að vinna og berjast fyrir hana og framar öllu að vernda hana fyrir óvinum hennar. Mikið af þeim hryllingi og ógeði sem vakna við hugmyndina um innrás óvinahers í föðurlandið er vegna þeirrar ómeðvituðu hneigðar að líta á slíka árás sem vanvirðingu og ofbeldi gagnvart móðurinni.

Móðurímyndinni er líka ætlað til að auka fórnarlund hermanna og sætta þá betur við hugsanlegan dauðdaga. Samlíking móður og fósturjarðar er ætlað að veita hermönnum þá huggun að þeir sem deyja á vígvellinum séu í raun að sofna í örmum elskandi móður. Á dulrænan hátt verður hermaður, sem deyr fórnardauða á vígvellinum, að nýju einn með móðurinni en slíkt hefur ekki gerst síðan í móðurkviði.

Þessar karllægu og upphöfnu kvenímyndir eru næsta máttlitlar ef þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Ekki er unnt að heyja langt stríð í nafni algóðrar, dyggðum prýddrar móður eða meyju ef engin slík finnst í heimalandinu. Á stríðstímum er brugðist við þessu með endurtúlkun kvenhlutverksins.

Endurgerða konan

Í ritgerð sinni Escape from Freedom, sem Erich Fromm ritaði sem viðbrögð við uppgangi fasismans í Þýskalandi, segir hann að hugmyndin um frelsi og ábyrgð einstaklingsins sé ógnvekjandi. Sjálfið er ómerkilegt og eitt í heiminum. Sökum þess er tilhneiging meðal manna að flýja sjálfið og gerast auðmjúklega háðir stærri stjórnareiningu í samfélaginu, hvort sem það er trúar- eða hugmyndafræðileg hreyfing. Í ritgerð Rödu Ivekovic kemur fram skilningur femínista á þessari hneigð:
Karlmaðurinn er ,,heill“ fyrir tilstilli samlífs hans við móðurlegan líkama þjóðarinnar og hersins sem útvíkkaðra endimarka líkamans. Einstaklingurinn gefur sig af fúsum og frjálsum vilja á vald hinnar stærri heildar vegna óttans við að vera sundraður og aumur ef hann er einangraður. Að leita öryggis í hópum og treysta á ofbeldi er greinilegt merki um leit glataðrar heildar og merki um söknuð á hinu ,,altæka“.

Það virðist harla ósanngjarnt að leggja að jöfnu inntak herútboðs í Þýskalandi nasismans og í Bandaríkjunum í síðari heimsstyrjöldinni vegna ólíks siðferðislegs og hugmyndafræðilegs inntaks. Á hitt verður þó að líta að styrjöld krefst þess ævinlega að sjálfið sé lagt til hliðar fyrir hagsmunum heildarinnar og hefur því sérhver styrjöld ákveðin fasísk einkenni, þ.e. skilyrðislaus hlýðni við valdboð að ofan. Sökum þess tel ég leyfilegt að nota yfirdrifna kynþáttahyggju (og þar af leiðandi skýra stefnu) nasista til þess að skýra hvernig kvenhlutverkið var endurskipulagt í aðdraganda styrjaldar með tilliti til aldarinnar allar.

Fasisminn vill heimta konuna aftur úr ,,firru“ nútímans aftur í hefðbundið hlutverk sitt sem móður. Adolf Hitler sagði að konan ætti sér líka vígvöll og með hverju því barni sem hún fæddi í heiminn væri hún að berjast fyrir þjóð sína. Til þess að mótmæla nútímalegu líferni kvenna eru einatt fundnar sjónrænar táknmyndir, svo sem endurvakning notkunar fornra þjóðbúninga sem skírskotar til glæstrar fortíðar hefðbundinna fjölskyldugilda. Enn í dag eru þjóðbúningar notaðir í undanfara styrjalda, hvort sem það á að teljast merki þjóðerniskenndar eða sem skírskotun til ákjósanlegra fjölskyldugilda.

Fortíðarhyggja nasista var slík að þeir hvöttu konur eindregið til þess að snúa sér að nýju að fornum heimilisiðnaði, líkt og kom fram í Völkerischer Beobachter árið 1936: ,,Það hlýtur að virðast ótrúlegt að konur og stúlkur skuli snúa sér aftur að vinnu við rokka og vefstóla. En þetta er ákaflega eðlilegt. […] Þessi verk verða konur og stúlkur þriðja ríkisins að taka upp aftur.“ Sömuleiðis er flestum kunnug þekkt fréttamynd af fjöldafundi í Serbíu þar sem Slobodan Milosevic smakkar á heimagerðu brauði konu í þjóðbúningi, sem undirstrikar þessi sömu gildi. Ungar stúlkur í þjóðbúningi geta líka verið látnar tákna glötuð landssvæði líkt og gert var í Frakklandi fyrir fyrri heimsstyrjöld en þá voru hin glötuðu héruð Alsace og Lorraine í líki slíkra stúlkna sem voru svívirtar af þýsku ofurvaldi.

Ekki er nóg að mæra einungis liðna tíð heldur verður líka að benda á fánýti nútímastöðu konunnar. Það gerði einn helsti hugmyndasmiður nasista Alfred Rosenberg í bók sinni Goðsögn tuttugustu aldarinnar: ,,Þátttaka kvenna í atvinnulífinu lækkaði laun karlmanna. Afleiðing þess var sú að karlmenn voru piparsveinar óeðlilega lengi. Það leiddi til fjölgunar ógiftra kvenna á giftingaraldri. Það leiddi svo til aukins vændis.“

Þessi sérkennilega afstaða til kvenna skýrist þó ekki af íhaldsseminni einni né heldur á hræðslu við þátttöku kvenna í atvinnulífinu. Hún byggðist öðru fremur á hugmyndum um viðhald kynstofnsins sem ekki væri unnt að viðhalda nema með þátttöku kvenna. Þátttaka í atvinnulífinu myndi skarast við það ,,æðra“ hlutverk að fæða börn og fóstra þau. Þjóðernishyggja og kynþáttahyggja eiga fylgi sitt að þakka þeirri „vá“ sem kynstofninum stafar af erlendri innrás og blöndun. Slík umræða var t.d. ríkjandi þegar illa horfði fyrir Frökkum í fyrri heimsstyrjöldinni. Frakkar óttuðust ekki einungis áhrif þess að óskilgetin börn þýskra ofbeldismanna væru að dafna í frönskum móðurkviði heldur líka að fólksfjölgun var mun meiri í Þýskalandi en í Frakklandi. Umræðan beindist því að sambandi kynþáttar, blóðs og landsvæðis og getuleysi Frakka gagnvart þýsku valdi. Sjálfsvorkunn og vanmáttur hermanna á vígvellinum er þar með tengdur getuleysi þeirra kynferðislega.

Ekki var heldur alltaf svo að hermenn hugleiddu eigið getuleysi og teldu sig bera alla sök á því þegar illa fór. Dæmi um þetta má finna í stríðsáróðri í Króatíu þegar sigurvíma breyttist í reiði yfir ósigrum. Móðurímynd Króatíu varð í einu vetfangi að ,,fallinni konu“ eins og kom fram í einu króatísku dagblaðanna árið 1992: ,,Króatía upplifði siðferðislegt hrun, sem einungis kona getur upplifað þar sem það eru ekki til neinir lauslátir karlmenn. Einungis lauslát kona gefst upp án þess að veita mótspyrnu og tekur þessu sem óumflýjanlegu hlutskipti eða örlögum. Hins vegar verjast karlmenn.“ Á þennan hátt breyttist hin háleita mær/móðir/fóstra í fallna, auðunna konu og hóru og ábyrgðin færðist til hennar af óförum í stríðinu.

Svipaðar ímyndir má finna í Frakklandi fyrri heimsstyrjaldarinnar þar sem Frakkland var tákngert sem vændiskona. Þessi mynd siðferðisskorts og lauslætis átti að sýna hversu Frakkland var hrjáð af hneykslismálum og flokkadráttum. Hún sýndi hversu rýrir líkamlegir burðir og kvenlegt siðferði Frakklands mátti sín lítils gagnvart karlmannlegu valdi Þýskalands.

Konur, sem er svo mikilvægt að verja í stríði, eru samtímis uppfullar af allskyns löstum. Þær eru gjarnan sýndar sem þær séu þess ekki verðar að fyrir þær sé barist, að þeim sé ekki treystandi og jafnvel sem óvinurinn sjálfur. Í áróðursveggspjöldum er konum lýst sem blaðurskjóðum sem missa út úr sér mikilvæg hernaðarleyndamál með blaðri sínu svo sem slagorðin ,,Lausmælgi sökkvir skipum“ eða frægt bandarískt veggspjald úr síðari heimsstyrjöldinni sem sýnir tvær konur ræðast við í almenningsvagni en Hitler og Göring sitja fyrir aftan þær og á því stendur ,,Þú veist aldrei hver er að hlusta! VANHUGSAÐ TAL KOSTAR MANNSLÍF.“

Þrátt fyrir slíkan áróður er hermönnum uppálagt að virða sumar konur en bera enga virðingu fyrir öðrum. Þrátt fyrir meinta siðferðisbresti kvenna er stríð engu að síður háð til að vernda mæður, dætur og eiginkonur gegn þeim sem vilja nauðga þeim og drepa. Þegar styrjaldaráróður hefur öðlast svo kynferðislegan undirtón, konur heima í héraði hafa verið upphafnar samtímis því sem andstæðingurinn hefur verið svertur er nauðsynlegt að athuga hverjar afleiðingar slíks málflutnings eru í eiginlegum bardaga.

Fullnaðarsigur nauðgunarinnar

Áður hefur verið bent á þá ráðandi áherslu í stríðsáróðri að tengja órjúfanlegum böndum dularfulla móður- eða meyjarímynd eiginlegu landssvæði. Vesna Kesic bendir á að:

Með hinu dularfulla sambandi konu, lands og þjóðar var landið og þjóðin jafn svívirt og líkami einnar konu. Einstaklingur sem átti að baki einstaka reynslu þjáninga og sársauka hvarf og var breytt í voldugt þjóðartákn. Kvenlíkamar voru teknir undir landsvæði þjóðarinnar.

Að eiga konur hefur alltaf þótt merki um karlmannlegan árangur og heyrir það með líkum hætti undir karlmannlegt stolt að geta varið konur sínar. Nauðgun kvenna af óvinaher eyðileggur allar vonir hins sigraða karlmanns um völd og eignir. Með þeim hætti hefur líkami konunnar orðinn táknrænn vígvöllur, þar sem sigurvegarinn sendir auðskilin boð um fullnaðarsigur sinn. Gerda Lerner gengur svo langt að telja að nauðgun kvenna í samfélagi feðraveldisins sé í raun táknræn vönun karlmanns, þar sem sá, sem getur ekki varið konur sínar, sé sannarlega getulaus. Þetta getuleysi er tengt við foldina í Frakklandi fyrri heimstyrjaldarinnar í orðum Dr. Paul Rabier sem segir að eiginmaður án barna myndi sannarlega ,,skammast sín og fyllast heift ef hann kæmi heim að akri sem hann hefði ekki náð að sá almennilega.“

Nauðganir hafa ekki þann eina tilgang að niðurlægja óvinakarlmenn því að þær geta líka þjónað markmiðum kynþáttahyggjunnar. Þær geta verið skipulagðar hernaðaraðgerðir og liður í þjóðernishreinsunum. Vitnisburður bosnískra kvenna er til merkis um að nauðganir hafi farið fram með svipuðum hætti allsstaðar. Þær voru niðurlægðar vegna uppruna síns og markmiðið var að þunga þær svo þær gætu síðar meir fætt ,,littla chetnikka.“ Sökum þessa skilst enn betur ofuráhersla þjóðernissinna á móðurhlutverkið heima í héraði til þess að koma í veg fyrir rýrnun kynstofnsins sem á endanum leiðir til landvinninga kynstofnsins á erlendri grundu.

Sökum kynþáttahyggjunnar getur framferði hermanna verið breytilegt eftir því hvaða þjóð á í hlut. Um þetta vitnar framferði Sovétmanna er þeir sóttu vestur á bóginn í heimsstyrjöldinni síðari. Slavneskar konur, þ.e. pólskar, tékkneskar, slóvaskar, serbneskar og búlgarskar, urðu almennt ekki fórnarlömb ofbeldis Sovétmanna. Aðra sögu var að segja um þýskar og ungverskar konur sem ekki voru slavneskar og þurftu að þola taumlaust ofbeldi og nauðganir Sovétmanna.

Í átökunum í fyrrverandi Júgóslavíu kom ennfremur fram, hvernig áróðursmeisturum hefur tekist að gera tímann afstæðan. Bosnískar konur, sem urðu fórnarlömb nauðgana herflokka Serba, sögðu frá því að gerendurnir hafi kallað þær ,,bule“ eða ,,blije“ sem eru hefðbundinn nöfn múslimskra kvenna og þeirra kristinna kvenna sem snérust til Íslam þegar Ottómanar réðust inn í landið. Sagan segir að trúskiptingar þessir hafi verið grimmari Serbum en Tyrkir og því var verið að hefna 500 ára gamalla saka með skipulögðum nauðgunum. Þannig er sagan endurskoðuð og fundið sérhvert atvik þar sem þjóðin hefur verið fórnarlamb til þess að réttlæta ofbeldisglæpi.

Augljóst er hvernig orsakasamhengið milli upprifjunar fortíðarinnar og nýrra glæpa getur fléttast. Hins vegar er ekki síður athyglisvert hvernig alið er á kvenhatri í stríði. Dæmi um þetta eru veggspjöld í Belgrad á meðan loftárásum NATO stóð en þar voru látin flakka kynferðisleg ókvæðisorð um Chelsea Clinton, dóttur Bandaríkjaforseta. Vegna landfræðilegrar afmörkunar þeirrar styrjaldar var ekki mögulegt að ,,heiðri“ Chelsea stæði nein ógn af serbneskum hersveitum og virðist því frekar hafa verið ætlað að hvetja til kynferðislegra ofbeldisglæpa í næsta nágrenni.

Nauðganir í stríði eru ofbeldisverk gagnvart almennum borgurum og teljast því til stríðsglæpa. Þrátt fyrir það hefur lítið verið gert til þess að rétta hlut fórnarlambanna að styrjöldum loknum. Má í því sambandi benda á Nürnberg-réttarhöldin þar sem bandamenn réttuðu í stríðsglæpum nasista og sem sigurvegarar var ekkert réttað í þeirra eigin málum. Áður hafa verið nefndar fjöldanauðganir Sovétmanna í Þýskalandi en auk þess er þekkt að hermönnum í franska hernum frá Marokkó, sem hertóku Ítalíu 1943-1944, virðist hafa verið gefið fullt frelsi til að nauðga ítölskum konum. Ástæðan fyrir því að ekki er refsað fyrir nauðganir er meðal annars sú að lítil vinna hefur verið lögð í að skrá reynslu fórnarlambanna og án skjalfestra gagna fyrnast málin smám saman.

Í því samhengi vekur furðu að enn í dag hefur lítið verið aðhafst til að rétta hlut þeirra kvenna frá Kóreu, Kína, Filippseyjum, Indónesíu, Búrma (Myanmar), Hollandi og Japan sem Japanir neyddu til vændis í skipulögðum vændishúsum í herbúðum þeirra. Þó að japanskir embættismenn hafi viðurkennt tilvist þessara vændishúsa þá hefur fórnarlömbunum gengið treglega að leita réttar síns og virðist vera sterk hreyfing í Japan að þurrka þennan blett úr minni þjóðarinnar (sbr. nýútkomna námsbók þar í landi). Að einhverju leyti mætti álykta að erfiðara sé fyrir konur sem verða fórnarlömb svo skipulagðra og umfangsmikilla nauðguna að leita réttar síns en þeirra sem lenda í einni tilviljanakenndri. Þar má vísa til karllægra sjónarmiða líkt og komu hér fyrr fram í króatísku dagblaði um lauslátu konuna sem spyrnir ekki á móti og sé því í eðli sínu ólík karlmanni sem hefði barist á móti. Sé mið tekið af þeim áróðri, sem hefur verið reifaður hér, mætti ætla að þær konur, sem neyddar voru til vændis, hafi ekki verið bein fórnarlömb ofbeldis heldur líka fórnarlömb lélegs siðferðis sjálfra sín.

Þetta virðist harðla furðuleg staðhæfing en ég tel að ætla megi að sá áróður sem miðar að því að sverta eigin konur, einkum þegar illa gengur, miði að því að búa sig undir það versta. Þegar ósigur er fyrirsjáanlegur eða mögulegur þjónar ófrægingaráróður gagnvart eigin konum þeim tilgangi, að fría karlmenn undan þeirri ábyrgð að verja þær. Við ósigur og hugsanlegar nauðganir sem honum fylgja er ósigur karlmanna minni þar sem konurnar voru ekki verðar þess að fyrir þær væri barist.

Áróðri er ekki einungis ætlað það hlutverk að safna saman liði eða fá menn til fylgis við ákveðna skoðun, heldur virðist hann ekki síður vera tæki til að færa ábyrgð frá einum hóp til annars. Notkun kvenímynda í stríðsáróðri virðist því öðru fremur í grófum dráttum grundvallast á svívirðu þeirri sem konur ,,okkar“ hafa orðið fyrir af hendi ,,þeirra“ sem réttlætir hefnd ,,okkar“ á konum ,,þeirra“. En ef ,,við“ stöndum okkur ekki í stríðinu verða konur ,,okkar“ svikular og lauslátar.

Niðurstöður

Sú ofnotkun kvenímynda í styrjaldarrekstri, sem hér hefur verið reifuð, virðist furðuleg með tilliti til þess að styrjaldir hafa nær alla tuttugustu öldina verið ,,karlmannsíþrótt“ og væri því eðlilegra að nota táknmyndir um karlmannlega hreysti og styrk.
Í sálfræðihernaði þeim sem rekinn er fyrir stríði, virðist þó vera heppilegra að verið sé að berjast fyrir háleitari og göfugri markmiði en því einu að vernda eigin skráp. Styrjöld til verndar móður og fósturmold sem eitt og hið sama verður að þakkargjörð fyrir umhyggju og góðu uppeldi. Vernd hinnar óflekkuðu meyjar og háleitra hugsjóna frelsis er vörður um þær ,,hreinu“ hugmyndir sem fara forgörðum nema fyrir þær sé barist.

Það hefur löngum ekki þótt karlmannlegt að aumka sig eða kveinka sér, verði karlmaður fyrir misgjörðum af annars hendi. Með því að færa sársaukann og kvölina á kvenþjóðina er hins vegar hægt að koma umkvörtunum í orð. Í stríðsæsingum virðist litlu máli skipta, hvort erlend misgjörð er ný eða aldagömul enda verður tíminn afstæður í málflutningi áróðursmannanna.

Þjóðernishyggja og kynþáttahyggja leggja áherslu á það hlutverk kvenna að sinna móðurlegum skyldum sínum svo að kynstofninn gleypist ekki eða tortímist við erlenda blöndun. Stöðug umræða um móðurhlutverkið og kynstofninn hefur svo leitt til ,,landvinninga“ erlendis, þ.e. skipulagðar þjóðernishreinsanir með það að augnamiði að gera sem flestar erlendar konur þungaðar í krafti naugðana.

Vanmáttur hinna sigruðu hermanna til að verja konur sínar gegn slíkum voðaverkum breytist oft í reiði gegn konunum sjálfum. Móðirin milda og mærin hreina verða á einni nóttu að svikulum og undanlátssömum portkonum. Þetta er þó ekki algilt þar sem frásagnir af nauðgunum eigin kvenna eru markvisst notaðar í stríðsáróðri til að stæla baráttulund hermanna og réttlæta fyrir þeim að svara líku í líkt.

Það er mikil flónska að vera vitur eftir á en draga má lærdóm af því sem á undan er gengið. Kvenímyndir í styrjaldarrekstri á tuttugustu öld voru þráfaldlega notaðar af áróðursmeisturum aldarinnar og hafa beint og óbeint leitt til mikilla óhæfuverka. Við rannsókn á slíku efni kemur fram ítrekað sama orðræðan og sömu táknmyndir og afleiðingarnar eru áþekkar. Einungis með því að kynna sér slíkt til hlítar er fært að þekkja fyrirbærið verði það notað til að blása til ófriðar á nýrri öld.

Heimildir
Adam, Peter: Art of the Third Reich. Harry N. Ambrams Publishers, New York, 1995.
Cockburn, Cynthia: „Being Able to Say Neither / Nor“ Punktar frá fundi sem skipulagður var af Peace Brigades International og the National Peace Council í Lundúnum, 14. apríl 1999.
Goldstein, Ivo: Croatia. A History. Hurst & Company, London, 1999.
Harris, Ruth: „The „Child of the Barbarian“: Rape, Race and Nationalism in France  during the First World War.“ Past & Present, 141 (nóvember) 1993. Bls.  171-206.
Ivekovic, Rada: „A Feminist Philosophical Approach to Nationalism and Borders.  The Gender of the Nation and the use of Violence.“ University of Paris, 2000.
Jowett, Garth S. & O’Donnell, Victoria: Propaganda and Persuasion. Sage  Publications, Thousand Oaks, 1999.
Kesic, Vesna: „Construction of Gender and Ethnicity in Nationalists Rhetoric in  Former Yugoslavia and its bearing on violence.“ Ófriður á 20. öld: Frá allsherjarstríði til þjóðernisstríða. Sagnfræðiskor Háskóla Íslands, 2000.
Naimark, Norman M.: The Russians in Germany. A History of the Soviet Zone of  Occupation, 1945-1949. The Belknap Press of Harvard University Press, Cambridge (Massachusetts), 1995.
Niarchos, Catherine N.: „Women, War, and Rape: Challenges Facing the International  Tribunal for the Former Yugoslavia.“ Human Rights Quarterly, 17, 4 (1995), 649-690.
Rancour-Laferriere, Daniel: The Slave Soul of Russia. Moral Masochism and the Cult of Suffering. New York University Press, New York, 1995.
Rosenberg, Alfred: The Myth of the Twentieth Century. An Evaluation of the  Spiritual-Intellectual Confrontations of Our Age. The Revisionist Press, New York, 1993.
Woodward, Susan L.: Balkan Tragedy. Chaos and Dissolution after the Cold War. The Bookings Institution, Washington D. C., 1995.