Auður Magndís Auðardóttir og Íris Ellenberger flytja annan fyrirlestur í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á haustmisseri 2022 en yfirskrift raðarinnar er sú sama og á vormisseri: Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlestur Auðar Magndísar og Írisar nefnist „Mamma, mamma, börn og bíll. Hinsegin fjölskyldur í fjölmiðlum 2010-2021“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 15. september í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.

Það er ekki nýtt að hinsegin fólk stofni fjölskyldu og ali upp börn en leið þess að fjölskyldumyndun hefur verið misgreið eftir tímabilum og samfélagsháttum. Í fyrirlestrinum er fjallað um rannsókn sem stendur yfir á birtingamyndum hinsegin fjölskyldna í prentmiðlum á Íslandi á árunum 2010-2021. Gagnasafn rannsóknarinnar samanstendur af 37 viðtölum við hinsegin foreldra. Tímabilið sem um ræðir er áhugavert í alþjóðlegu samhengi þar sem frá árinu 2006 hefur hinsegin fólki á Íslandi staðið til boða allir sömu lagalegu möguleikar og sís-gagnkynja pörum til formlegrar fjölskyldumyndunar, a.m.k. í orði en ekki alltaf á borði. Viðtölin og myndmál þeirra voru greind út frá sjónarhóli hinsegin fræða og kenninga um nýfrjálshyggju þar sem meðal annars var skoðað með hvaða hætti hinseginleiki fjölskyldnanna er settur fram í viðtölunum og hvernig hann er málaður upp sem hluti af hinu góða og verðuga íslenska fjölskyldulífi. Niðurstöður greiningarinnar eru settar fram í fimm þemum sem meðal annars hverfast um togstreitu um eðlileika, hefðbundið fjölskyldulíf, börn hinsegin foreldra sem þrautseiga borgara og það að tilheyra íslensku stórfjölskyldunni. Þannig voru greindir straumar sérstöðu/samlögunar og þeir settir í samhengi við innlimun hinsegin fólks í þjóðríkið. Við greiningarvinnuna studdumst við meðal annars við kenningar um samkynhneigða þjóðernishyggju (e. homonationalism), tilfinningareglur (e. feeling rules) og stjórnvaldstækni (e. governmentality) nýfrjálshyggjunnar. Rannsóknin varpar þannig ljósi á samlögun hinsegin fjölskyldna inn í hið ríkjandi norm, og mögulega andstöðu þeirra við þá samlögun, frá því að þær hlutu full lagaleg réttindi.

Auður Magndís er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hverfast meðal annars um stétt, kyn og hinsegin málefni í tengslum við mæðrun og uppeldi en hún hefur til að mynda rannsakað áhrif nýfrjálshyggju á hugmyndir okkar um barnæsku og móðurhlutverkið. Þá hefur hún einnig rannsakað markaðsvæðingu menntunar og foreldrahlutverksins hérlendis, meðal annars búsetuval og skólaval foreldra barna á grunnskólaaldri.

Íris Ellenberger er sagnfræðingur og dósent í samfélagsgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Helstu rannsóknaráherslur hennar eru saga fólksflutninga, þverþjóðleg saga, hinsegin saga og saga kynverundar. Hún hefur skrifað fræðigreinar um íslensku hinsegin paradísina, skörun kvennahreyfingarinnar, menntunar og kvennaásta í upphafi 20. aldar og lesbískan femínisma á Íslandi á 9. áratug sömu aldar. Hún er einn af höfundum Regnbogaþráðarins á Þjóðminjasafni Íslands og leiðir jafnframt rannsóknarverkefnið Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara og norræna verkefnið Queering National Histories.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg að honum loknum.