Ásdís R. Magnúsdóttir, dósent í frönsku. Fæðingarsaga frá 16. öld
Fæðingarsögur eru sjaldgæfar í bókmenntum miðalda og endurreisnar. Oftast er þess getið í fáum orðum að kona hafi alið manni sínum barn og stundum fylgir reyndar sögunni að þar hafi hún látið líf sitt. Í hinu fræga franska skáldverki Gargantúi og Pantagrúll eftir lækninn og reglubróðurinn Rabelais er að finna eina forvitnilegustu og fjörlegustu fæðingarsögu allra tíma. Eftir ellefu mánaða meðgöngu og mikla magakveisu eignast hin risavaxna Gargamelle son sinn Gargantúa út um vinstra eyrað og kemur þannig öllum á óvart, ekki síst sjálfri sér. Hún deyr þó ekki, en hverfur af sjónarsviðinu það sem eftir er verksins. Í fyrirlestrinum verður þessi frásögn sett í samhengi við lýsingar á kvenlíkamanum í bókmenntum miðalda og endurreisnar. Einnig verður leitast við að skýra áhuga Rabelais á fæðingum, og þá einkum svona óvenjulegum fæðingum, og hvers vegna hann lætur Gargamelle eignast son sinn út um vinstra eyrað en ekki það hægra.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: Minningar dauðans: Um verk Evu Hoffman og Lisu Appignanesi
Fjallað verður um verk kvenna sem leita upprunans og sögu fjölskyldunnar í hörmungum seinni heimsstyrjaldarinnar. Eva Hoffman og Lisa Appignanesi eiga það sameiginlegt að vera dætur fólks sem lifði af helför nasista gegn gyðingum. Báðar reyna þær í verkum sínum að átta sig á minningum foreldra sinna og ekki síst því hvernig þessar minningar hafa orðið að þeirra eigin minningum. Þær rannsaka eigin fjölskyldu og reyna að setja sögu hennar í stærra sögulegt samhengi um leið og þær reyna að átta sig á persónulegri vídd þessarar sögu. Í fyrirlestrinum verður kannað hvernig kyn tengist umræðunni um minni og sögu í kjölfar helfararinnar.
Guðni Elísson: Orfeifur og Evridís í ljóðum bandarískra skáldkvenna á 20. öld
Skáldkonur 20. aldar víkja í veigamiklum atriðum frá tregahefðinni, ekki síst þeirri þörf karlskálda að sigrast á hinum látna, leysa hann af hólmi og fjarlægja sig honum. Þær neita að sleppa konunni lausri og með því dæma þær sig gjarnan til að endurtaka Orfeifsminnið á öfugum forsendum. Bundnar Evridísi fylgja þær henni á táknrænan hátt niður í undirdjúpin, niður í veröld hinna óvirku og dauðu, niður í þögnina og myrkrið. Fjallað verður um ljóð ýmissa skáldkvenna s.s. H.D., Adrienne Rich og Louise Glück.
Alda Valdimarsdóttir: Austen og leyndardómar greinanna: Glæpasögur Stephanie Barron
Er mögulegt að endurþýða ímynd Austen á forsendum glæpasagnagreinarinnar? Hér er glæpasería Stephanie Barron um jómfrúarspæarann Jane Austen skoðuð en sögupersóna Barron, Austen leysir hvern glæpinn á fætur öðrum. Jafnframt er leitast við að greina hvernig opinber ímynd Austen er felld að hugmyndinni um jómfrúarspæjarann (Austen er skörp, lógísk, hefur góða tilfinningu fyrir fólki og samfélagsháttum).
Úlfhildur Dagsdóttir: Af konu ertu komin…: skapnaðir og óskapnaðir
Hvað er svona merkilegt við það – að kona skuli búa til lifandi veru? Í skáldverkum um sköpun hverskyns sæborga er það iðulega karlkyns vísindamaður sem stendur að tilbúningnum. Í erindinu er ætlunin að skoða nokkur dæmi úr bókmenntum og kvikmyndum sem sýna vísindakonur sem skapara gervimenna. Einn útgangspunkturinn verður í myndbandi Chris Cunningham við lag Bjarkar „All is full of love“, en þar birtist kvenskapari sem skapar eftirmynd sjálfrar sín, og annar útgangspunktur er í skáldsögu Mary Shelley, Frankenstein, en þar skapar karlkyns vísindamaður það sem á að vera hinn fullkomni maður.