Dagný Kristjánsdóttir: Fyrr var oft í koti krútt
Myndin af stelpum í barnabókum hefur löngum einkennst af staðalhugmyndum um hið barnslega sakleysi í bland við kvenlegar dyggðir sem kristallaðist í „krúttinu“ Shirley Temple. Góðar stelpur, krútt og prinsessur í barnabókum koma við sögu í þessum fyrirlestri en líka verður fjallað um svokallaða „stelpustráka“ auk vondra og ljótra stelpna sem gera uppreisn gegn „krúttímyndinni.“
Brynhildur Þórarinsdóttir: Sextán ára mamma eða flatbrjósta nunna? Kynjamyndir í íslenskum unglingabókum
Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfum samfélagsins til unglinga á fáeinum áratugum, merkja má mun minni þolinmæði gagnvart áhættuhegðun á borð við áfengisneyslu og kynlíf. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að nú eru ungmenni lagalega séð börn til 18 ára aldurs, þau eru hreinlega lengur í ábyrgð og bernskunni lýkur ekki lengur með samræmdum prófum. Ein afleiðing þessa er að unglingabókamarkaðurinn hefur gjörbreyst, íslenskir rithöfundar virðast veigra sér við að skrifa fyrir unglinga, og gelgjubækur sem daðra við kynhvötina eru svo að segja horfnar. Blómaskeið unglingabókanna var 9. áratugurinn þegar Eðvarð Ingólfsson og Andrés Indriðason gáfu út samanlagt 25 unglingabækur, auk þess sem fleiri höfudar blönduðu sér slaginn, bæði íslenskir og þýddir. Hér verður spáð í þær kynjamyndir sem haldið er að unglingum í unglingabókum og rýnt í hvernig – og hvort – þær endurspegla samfélagið sem unglingarnir alast upp í. Einkum verður litið á 9. áratuginn þegar út komu bækur eins og Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð sem dásömuðu hefðbundin kynjahlutverk og stýrðu strákum út úr skóla og í hlutverk fyrirvinnu en stelpum óléttum inn á heimilið að prjóna barnaföt. Skoðað verður hvort nútímaunglingabækur eins og Kossar, knús og málið er dautt og Ég er ekki dramadrottning frá 2006 hafi upp á ferskari kynjamyndir að bjóða.
Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir, bókmenntafræðingur: Hann hafði ekki af mér augun – Kennaramyndir í bókmenntum
Fjallað verður um algeng birtingarform kennaramynda í skáldsögum og ævisögum. Kennarinn í augnaráði nemandans fær oft háðuglega útreið þar sem leitast er við að afbyggja þá valdsmynd sem kennarinn stendur fyrir. Skólastofan er heimur óreiðu sem einkennist af valdabaráttu. Lýsingarnar eru karnivalskar á þann hátt að leikur og umsnúningur einkenna texta þegar nemendur lýsa kennurum og kennslu. Kennaramyndir í bókmenntum eru oft gróteskar myndir hlaðnar vísunum í kynlíf og klám.
Sýnt verður fram á ólíkt sjónarhorn karl- og kvenrithöfunda þegar fjallað er um kennara og kennslu. Í textum karlhöfunda einkennast lýsingar á kvenkennurum ýmist af ógeði eða hrifningu. Herfan og kyntáknið eru andstæðar myndir sem takast á í textum um konur og kennslu í skrifum karla. Algengar myndir af karlkennurum eru rolan og föðurmyndin. Kynlífsfantasía gagnvart kennaranum er áberandi einkenni í textum um kennslu og kennara. Í skrifum kvenna um kennslu og kennara eru lýsingarnar á þann veg að kvenkennarar ganga inn í karnival og grótesku skólastofunnar og stjórna á meðan karlkennarar mega sín lítils.