Auður stærriFöstudaginn 4. október flytur Auður H. Ingólfsdóttir, lektor á félagsvísindasviði við Háskólann á Bifröst, fyrirlestur sem ber heitið „Loftslagsbreytingar og femínismi – Hliðarspor eða kjarni málsins?“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Á síðustu misserum hefur nokkuð borið á umræðu um tengsl kyns, kyngervis og loftslagsbreytinga. Bent hefur verið á að loftslagsbreytingar geta haft ólík áhrif á konur og karla vegna mismunandi stöðu þeirra í samfélaginu. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á að ólík hegðun kynjanna í daglegu lífi leiðir til þess að kolefnisfótspor karla og kvenna eru misdjúp.  Í þessum fyrirlestri verða þó önnur tengsl tekin til skoðunar. Sjónum verður beint að því hver séu áhrif ríkjandi gilda, sem skilgreind eru sem „karllæg“ í fræðilegum kenningum og í samfélagsumræðu, þegar kemur að viðbrögðum  samfélagsins við þeirri ógn sem felst í loftslagsbreytingum af mannavöldum. Leitað verður svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig hafa ríkjandi gildi mótað hugmyndir okkar um samskipti manns og náttúru? Myndi aukin áhersla á „kvenlægari“ gildi leiða til annars konar ákvarðanatöku þegar kemur að því að forgangsraða orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda? Skiptir kyn þeirra sem koma að ákvarðanatöku í málaflokknum máli í þessu samhengi?

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!

 

Upptaka af fyrirlestrinum má finna hér.