Kristín Svava Tómasdóttir er fyrsti fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á haustmisseri 2022 en yfirskrift raðarinnar er sú sama og á vormisseri: Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlestur Kristínar Svövu nefnist „Lífsförunautarnir Guðlaug Guðmundsdóttir og Þórunn Ástríður Björnsdóttir og heimilislíf þeirra“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 8. september í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.

Innan hinsegin fræða hefur verið fjallað um lífsförunauta, pör ógiftra kvenna sem bjuggu saman í borgum og bæjum Evrópu um og eftir aldamótin 1900, ráku saman heimili og lifðu sameiginlegu fjölskyldulífi. Færð hafa verið rök fyrir því að slík sambúð kvenna hafi framan af þótt eðlileg en að eftir því sem leið á 20. öld hafi breiðst út hugmyndir um að hún væri óeðlileg og tortryggileg. Meðal þeirra kvenna sem falla að þessu mynstri á Íslandi eru Guðlaug Guðmundsdóttir og Þórunn Ástríður Björnsdóttir en Þórunn var mikilsvirt ljósmóðir í Reykjavík. Guðlaug og Þórunn héldu heimili saman frá því um aldamótin 1900 til dauðadags um miðjan fjórða áratuginn. Í heimildum er Guðlaug gjarnan nefnd hjú eða bústýra Þórunnar en ljóst er að samband þeirra var nánara en svo. Þær ráku heimili sitt á svipaðan hátt og gagnkynja hjón hefðu gert, hin menntaða embættisljósmóðir Þórunn vann fyrir heimilinu en Guðlaug sinnti húsmóðurstörfum innanstokks, og eftir andlát þeirra voru þær jarðaðar hlið við hlið í Suðurgötukirkjugarði. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig kyn, kynverund og stétt fléttast saman og birtast í heimilislífi Þórunnar og Guðlaugar og hvernig samband þeirra féll, eða féll ekki, að hefðbundnum hugmyndum um kynhlutverk á fyrstu áratugum aldarinnar.

Kristín Svava Tómasdóttir er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og rithöfundur. Hún hlaut Viðurkenningu Hagþenkis árið 2018 fyrir bók sína Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar en nýjasta bók hennar, Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25, er væntanleg haustið 2022. Kristín Svava er jafnframt einn af höfundum bókarinnar Konur sem kjósa – aldarsaga. Útgáfa hennar tengdist rannsóknarverkefninu „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915–2015“, sem styrkt er af Rannís og stýrt af Erlu Huldu Halldórsdóttur og Ragnheiði Kristjánsdóttur, en fyrirlestur Kristínar Svövu er þáttur í sama rannsóknarverkefni.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg að honum loknum.